Boris Johnson vill kosningar 12. desember

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vill boða til kosninga 12. desember …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vill boða til kosninga 12. desember næstkomandi. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segist vera tilbúinn að gefa þingmönnum meiri tíma til að ræða útgöngusamning Breta úr Evrópusambandinu, að því gefnu að þeir samþykki að boða til kosninga 12. desember. 

Leiðtog­ar Evr­ópu­sam­bands­ins munu nú ákveða hvort Bret­ar fái frest á út­göngu, en ráðgert hafði verið að Bret­ar gengju út úr ESB 31. októ­ber. Johnson segist bjartsýnn á að fresturinn verði framlengdur þó svo að hann vilji helst ekki að ferlinu verði frestað. 

Johnson hvetur þingmenn Verkamannaflokksins til að styðja kosningar í atkvæðagreiðslu í bréfi sem hann skrifar til Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins. 

Samkvæmt heimildum BBC hyggst Johnson koma kosningunum í gegn ef Evrópusambandið framlengir frestinn til loka janúarmánaðar. Verði það raunin mun þingið líklega verða leyst upp 6. nóvember. Ef fresturinn verður aðeins mánuður til viðbótar mun Johnson reyna að koma samningnum aftur í gegnum breska þingið. 

Evrópusambandið mun að öllum líkindum taka ákvörðun á morgun um lengd frestsins.

mbl.is