Líkir Corbyn við Stalín

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur sakað Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, um hatur í garð þeirra sem skapa verðmæti sem ekki hefði sést frá því í valdatíð Jósefs Stalíns í Sovétríkjunum.

Þetta kemur fram í grein sem Johnson ritar í breska dagblaðið Daily Telegraph og fjallað er um á fréttavef blaðsins en greinin markar upphaf kosningabaráttu Íhaldsflokksins vegna þingkosninganna sem fram fara 12. desember. Sagði forsætisráðherrann að ef Íhaldsflokkurinn héldi áfram um stjórnartaumana að kosningum loknum myndi flokkur hans þvert á móti fagna athafnafólki í stað þess að sýna því fyrirlitningu.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu væru dyrnar opnaðar fyrir fjárfestingar í landinu upp á hundruð milljarða punda. Verkamannaflokkurinn hefði hins vegar ekki upp á annað að bjóða en frekari frestun útgöngunnar og afturför.

Forsætisráðherrann segir í greininni að stórsókn yrði hafin í heilbrigðismálum, skólamálum og löggæslumálum. leiðin til þess að efla innviði Bretlands sé að tryggja atvinnulífinu góð rekstrarskilyrði. Fólki sem færi á fætur snemma á morgnana til þess að opna verslunina sína, sem hætti sparifénu sínu vegna viðskiptahugmyndar.

„Við fögnum þeim vegna þess að árangur þeirra er okkar árangur,“ segir Johnson í greininni. Corbyn muni ekki aðeins hækka skatta á hina efnuðu heldur að lokum alla. Sjálfur gæti hann gengið frá útgöngunni úr Evrópusambandinu á nokkrum dögum eftir kosningarnar en undir Corbyn myndi það frestast alla vega um ár og kalla á tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, um útgönguna og sjálfstæði Skotlands.

mbl.is