Brást fjölskyldunni með því að dvelja hjá Epstein

Andrew prins átti vingott við auðkýf­inginn og barn­aníðinginn Jef­frey Ep­stein
Andrew prins átti vingott við auðkýf­inginn og barn­aníðinginn Jef­frey Ep­stein AFP

Andrew Bretaprins segist í viðtali sem sýnt verður í bresku sjónvarpi á morgun hafa brugðist konungsfjölskyldunni með því að dvelja á heimili auðkýfingsins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

Prinsinn ræddi við BBC um tengsl sín við Epstein í viðtali við fréttaskýringaþáttinn Newsnight.

Tengsl prinsins við Epstein rötuðu fram í sviðsljósið eftir að Epstein var handtekinn í sumar vegna áskana um kynferðisofbeldi. Hann lést í ágúst í fangelsi í New York og er talinn hafa svipt sig lífi.

Andrew Bretaprins var myndaður árið 2010 á göngu með Epstein í Central Park í New York, tveimur árum eftir að Epstein fékk fyrst dóm fyrir að kaupa kynlíf af stúlku undir lögaldri. Blaðið Mail on Sunday hefur birt ljósmyndir sem sýna prinsinn í íbúð Epsteins á Manhattan á svipuðum tíma.

„Ég skamma sjálfa mig vegna þessa daglega, af því að þetta var ekki við hæfi af meðlimi konungsfjölskyldunnar og við reynum að viðhalda hæstu viðmiðum og hegðun og ég brást þeim, það er svo einfalt,“ sagði Andrew.

Virg­inia Giuf­fre, sem áður hét Virg­inia Roberts, bar vitni um það í ákæru gegn Epstein og vinkonu hans árið 2016 að hún hafi haft kyn­mök við Andrew þegar hún var á barns­aldri en vitn­is­b­urðinum hef­ur verið ákaft neitað af prinsinum og kon­ungs­fjöl­skyld­unni. 

Andrew segist í viðtalinu ekki muna eftir Guiffre. „Ég man alls ekki eftir að hafa hitt þessa konu,“ segir Andrew í viðtalinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina