„Við höfum eyðilagt Feneyjar“

Borgaryfirvöld í Feneyjum lokuðu Markúsartorginu, einum af helstu ferðamannastöðum borgarinnar í dag, eftir að sjór flæddi á ný yfir borgina. Lýsti ítalska rík­is­stjórn­in í dag yfir neyðarástandi vegna flóða í borginni og hef­ur jafn­framt óskað eft­ir fjár­magni úr op­in­ber­um sjóðum til að ná tök­um á ástand­inu. Á rík­is­stjórn­ar­fundi í gær var samþykkt að veita ríf­lega 20 millj­ón­um evra til aðstoðar á svæðinu.

Gríðarleg flóð hafa verið í Fen­eyj­um und­an­farna daga og hef­ur sjór streymt inn á vin­sæla ferðamannastaði í borg­inni, þar á meðal Markús­ar­torg. Nú þriðju­dag var jafn­framt greint frá því að sjávarstaða í borg­inni hafi ekki verið jafn há í borginni í rúma hálfa öld.

Borgarstjórinn hóf söfnun fyrir borgina

Luigi Brugano, borgarstjóri Feneyja, sagðist neyðast til að loka torginu til að tryggja öryggi almennings og forða hörmungum, en vindur var sterkur og útsog töluvert. Flóðahæðin í dag náði 1,54 metra hæð áður en hún tók að lækka á ný. Er það nokkru lægra en á þriðjudag, en telst engu að síður hættulega mikil. Torgið var svo opnað á ný seinni partinn.

„Við höfum eyðilagt Feneyjar,“ sagði Brugnano„Við erum að tala um skemmdir sem nema milljarði dollara og það er bara eftir síðast, ekki eftir daginn í dag.“ Greindi hann svo frá því að opnað hefði verið á söfnun fyrir þá sem vildu styðja lagfæringar á þeim skemmdum sem hafa orðið á borginni vegna flóðanna.

Fjár­hags­legt tjón vegna flóðanna er ekki komið í ljós en talið er að það hlaupi á hundruðum millj­óna evra.

Matteo Salvini, leiðtogi þingflokksins Bandalagið, bættist í dag í hóp þeirra stjórnmálamanna sem hafa gert sér ferð til Feneyja að skoða skemmdirnar.

Það gerði líka menningaráðherrann Dario Franceschini. Varaði hann við því að risavaxið verkefni væri framundan varðandi lagfæringar á skemmdunum. Sagði ráðherrann rúmlega 50 kirkjur hafa orðið fyrir skemmdum. „Að sjá þessa staði með eigin augum gefur miklu meiri tilfinningu fyrir hörmungunum en að sjá myndir í sjónvarpi,“ sagði  Franceschini.

For­sæt­is­ráðherra Ítal­íu, Giu­seppe Conte, hefur þá lýst ástand­inu sem „gríðarlegu höggi á hjarta lands­ins“, en hann ferðaðist til borg­ar­inn­ar á miðviku­dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert