Bregðast við viðvörun Obama

Forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders segir kröfuna um hækkun lágmarkslauna ekki fela …
Forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders segir kröfuna um hækkun lágmarkslauna ekki fela í sér niðurrif á kerfinu. AFP

Nokkrir frambjóðendur í forkosningum Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári hafa þegar brugðist við viðvörun Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að passa sig að leita ekki of langt til vinstri.

Það vakti athygli þegar Obama varaði á fjáröflunarsamkomu í gær frambjóðendur við að vera of „bylt­ingar­kennda“. Forsetinn fyrrverandi hefur til þessa að mestu haldið sig til hlés í framboðsbaráttunni og ekki lýst yfir stuðningi við neinn frambjóðendanna. Sagði Obama í ræðu sinni að „venjulegir Bandaríkjamenn“ vildu ekki „rústa kerfinu“.

Tæplega 20 hafa gefið kost á sér og segir BBC suma þeirra hafa hvatt til einingar á meðan aðrir hafi varið stefnu sína. Enginn þeirra gagnrýndi þó orð forsetans.

Bernie Sanders var þó sá sem varði stefnu sína hvað harðast. Þegar Sanders var spurður í sjónvarpsviðtali hvort Obama hefði rétt fyrir sér kvaðst hann ekki vera að rústa kerfinu með því að ræða um lækkun lágmarkslauna. „Við erum að berjast fyrir réttlæti,“ sagði hann.

Elizabeth Warren, sem líkt og Sanders er meðal þeirra frambjóðenda sem hvað mestra vinsælda njóta, kaus að lofa heilbrigðisstefnuna sem Obama kom á, oft nefnd Obamacare. „Ég dáist að því sem Obama gerði,“ sagði Warren á kosningafundi í Iowa. „Hann var sá sem vísaði leiðina í heilbrigðismálum og tryggði tugum milljóna Bandaríkjamanna sjúkratryggingu þegar enginn taldi það mögulegt.“

Cory Booker, þriðji öldungadeildarþingmaðurinn sem einnig er í framboði, sagði flokkinn eiga að beina orku sinni í að sigra Donald Trump, ekki í innri pólitískar deilur. „Hættum að rífa hvert annað niður og hættum að draga tilbúnar línur,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert