Norsk tilslökun í fíkniefnamálum

Norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie segir að tillögur starfshóps ríkisstjórnarinnar miði …
Norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie segir að tillögur starfshóps ríkisstjórnarinnar miði aðeins að fyrirkomulagi sem létti álagið á löggæslu og dómskerfi, fíkniefni verði áfram ólögleg. Svo gæti farið á næstu misserum að samkvæmt norskum lögum verði það refsilaust finni lögregla skammta sem meta má til neysluskammta, ekki til sölu, í vösum fólks á götum Óslóar og annarra borga. Því verði hins vegar skylt að leita ráðgjafar fagfólks. Sitt sýnist hverjum um að opinber starfshópur á vegum norsku stjórnarinnar geri tillögu um slíkar tilslakanir, formaður Venstre talar um mestu félagslegu umbætur í nútímasögu Noregs, ríkislögreglustjóri er ekki sammála. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jarle Vines

Norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie og Runar Torgersen ríkislögmaður kynntu í dag niðurstöður starfshóps á vegum norsku ríkisstjórnarinnar sem falið var að setja fram tillögu um breytingar á norskri fíkniefnalöggjöf og svara þeirri spurningu hvort tímabært væri að afnema refsingar, sektir og dóma, fyrir neysluskammta og gera þeim, sem gripnir væru með slíka skammta, heldur að sækja sér ráðgjöf fagfólks um fíkn og fíknivanda á vegum búsetusveitarfélags viðkomandi.

Skýrsla starfshópsins og tillögur fara nú sína leið um umræður og í kjölfarið ef til vill sem frumvarp til breytinga á lögum gegnum norska Stórþingið. Þær draga meðal annars vatn úr brunni þeirrar leiðar sem fleiri Evrópuríki hafa farið, svo sem Sviss og Portúgal, en síðarnefnda ríkið breytti lögum sínum um aldamótin þannig að refsilaust var að hafa undir höndum magn fíkniefna sem ekki teldist svo stórvægilegt að rétt þætti að væna eigandann um sölu fíkniefna.

Heimildir lögreglu til leitar skertar

Høie heilbrigðisráðherra tekur skýrt fram að hér sé ekki í neinum skilningi verið að leyfa fíkniefni, tillögur hópsins miði aðeins að fyrirkomulagi sem létti álagið á löggæslu og dómskerfi. Samkvæmt portúgalskri skýrslu frá 2016 lækkaði glæpatíðni í landinu eftir breytinguna, færri urðu háðir fíkniefnum auk þess sem nýsmituðum HIV-sjúklingum fækkaði.

Í vinstri dálkinum má sjá það magn fíkniefna sem samkvæmt …
Í vinstri dálkinum má sjá það magn fíkniefna sem samkvæmt tillögum starfshópsins verður refsilaust nái lagabreytingar til samræmis við þessa 400 blaðsíðna skýrslu fram að ganga, í þeim hægri má sjá tillögur minnihlutans. Hvort heldur sem verður yrði það ógnarstórt skref fyrir eina bannglöðustu þjóð Evrópu, sem jafnvel gerir allt sem í hennar valdi stendur til að stjórna því hvenær þegnarnir neyta áfengis, leyfi norsk stjórnvöld slíkar tilslakanir í fíkniefnamálum. Enn er þó aðeins um tillögu starfshóps á vegum ríkisstjórnarinnar að ræða. Skjáskot/Skýrsla starfshóps norsku ríkisstjórnarinnar í fíkniefnamálum

Tillögur norska starfshópsins ganga út á að verði þær að lögum muni norskum fíkniefnaneytendum refsilaust að hafa í fórum sínum það magn fíkniefna sem sést í vinstri dálki skjámyndarinnar hér að ofan. Hægra megin eru tillögur minni hluta starfshópsins sem ekki náðu fram að ganga.

Þar með yrði, verði af, hinum norska neytanda aðeins gert að sækja sér ráðgjöf fagfólks í fíknisjúkdómum í stað sektar eða fangelsis sé hann tekinn með ekki meira magn (innan hvers flokks efna, ekki allt í einu) en fimm grömm af heróíni, fimm af kókaíni, fimm af amfetamíni, einn desilítra af GHB (smjörsýru), þrjá pappaferninga gegndreypta af LSD, eitt gramm af MDMA, 15 grömm af kannabis, 50 grömm af ofskynjunarsveppum sem innihalda virka efnið psilocybin, tvö kílógrömm af norðausturafrísku jurtinni khat (lat. Catha edulis), sem hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið á svipaðan hátt og koffein og amfetamín, og allt að 25 neysluskammta af lyfseðilsskyldum lyfjum eða læknadópi sem svo hefur verið nefnt.

Auk þessa fela tillögur hópsins í sér að heimildir lögreglu skerðist að nokkru leyti, henni verði ekki lengur heimilt að framkvæma húsleitir eða fara gegnum gögn í síma fólks, aðeins vegna gruns um að það noti ólögleg fíkniefni.

„Í dag hefjum við nýja vegferð í norskri fíkniefnastefnu,“ segir Trine Skei Grande, formaður Venstre-flokksins, í samtali við Nettavisen í dag. „Refsistefna í garð fíkniefnaneytenda færir okkur ekkert jákvætt. Það sem við þurfum að gera er að einbeita okkur að heilsuvernd þeirra sem hennar eru þurfi. [...] Þetta eru mestu félagslegu umbætur í norskri nútímasögu,“ segir Grande enn fremur.

Verði ekki heimilt að beita refsingum eða refsikenndum viðurlögum

Megininntak þess sem tillögur starfshópins, sem lagðar voru fram í 400 blaðsíðna skýrslu, fela í sér er eftirfarandi:

Notkun og handhöfn takmarkaðs magns fíkniefna til eigin nota verði eftir sem áður ólögleg athöfn. Í stað þess að refsa eða sekta fyrir háttsemina verði hinum seka hins vegar gert að mæta hjá ráðgjafa og sérfræðingi í fíkn og fíknisjúkdómum í búsetusveitarfélagi sínu.

Lögregla sinni áfram fíkniefnaeftirliti og afhjúpi fíkniefnamál auk þess sem henni verði áfram heimilt að framkvæma líkamsleit til að kanna hvort fólk sé með fíkniefni á sér. Lögregla annist að boða þá sem teknir eru með fíkniefni á fund ráðgjafa. Opinberum aðilum verði ekki heimilt að beita fíkniefnaneytendur, sem teknir eru með takmarkað magn, nokkurs konar refsingum eða refsikenndum viðurlögum (óbeinum refsingum á borð við sviptingu réttinda eða sektir). Opinberum aðilum verði ekki heimilt að þvinga sömu neytendur til að leita sér meðferðar eða sæta annars konar inngripi af hálfu heilbrigðiskerfisins án samþykkis viðkomandi.

Kristoffer Robin Haug, talsmaður heilbrigðismála græningja, Miljøpartiet De Grønne, tekur undir með Grande. „Þetta eru góðar fréttir og sigur allra sem þjáðst hafa og þjást enn í skugga misheppnaðrar fíkniefnastefnu sem meðhöndlar veikt fólk og fíkla eins og glæpamenn. [...] Rannsóknir sýna okkur að engin fylgni er á milli afglæpavæðingar fíkniefna og aukinnar neyslu fíkniefna.“

Ríkislögreglustjóri mótmælir harðlega

Norski ríkislögreglustjórinn Benedicte Bjørnland, fyrrverandi yfirmaður öryggislögreglunnar PST, er allt annað en ánægð með tillögur starfshóps ríkisstjórnarinnar og varaði sterklega við því að sú leið yrði farin í Noregi að afnema refsingar við neysluskömmtum fíkniefna þegar henni var boðið til viðtals í fréttamyndver norska ríkisútvarpsins NRK í vikunni.

Auk þess skrifaði Bjørnland, sem þó sker birtingarmynd sína í norskum fjölmiðlum almennt við nögl, grein í umræðudálk vefsíðu NRK á mánudaginn og setti þar meðal annars fram eftirfarandi:

„Eitt af því mikilvægasta sem samfélagið getur gert á sviði vímuefnamála er að reka umfangsmikla og sterka forvarnastarfsemi. Lögregla, sveitarfélög, skólar, sjálfboðaliðar og síðast en ekki síst foreldrar eiga að taka höndum saman við að skapa öruggt og gott umhverfi til handa börnum og ungmennum. Saman þurfum við að verða hæfari við að hvort tveggja fyrirbyggja og meðhöndla þau áföll sem oft spretta af harðri vímuefnaneyslu.

Við verðum að hafa uppi á [n. fange opp] fíkniefnaneytendum svo snemma sem verða má. Ég trúi á hjálp, stuðning og eftirfylgni með þeim ráðum sem duga hverjum fyrir sig. Nú er það þegar orðið svo að öðrum úrræðum [en refsingum] er beitt gagnvart ungmennum. Við leggjum mikla áherslu á að hjálpa hverjum og einum. Að viðhalda möguleikanum til að beita viðurlögum [n. sanksjonere] er oft eina úrræðið sem gerir samfélaginu kleift að vera í þeirri stöðu að koma til hjálpar,“ skrifaði Bjørnland í erindi sínu á vefsíðu NRK.

NRK (viðtal við Pernille Huseby, formann samstarfshóps í fíkniefnamálum)

Stavanger Aftenblad (rætt við Trine Skei Grande, formann Venstre)

Dagsavisen

VG

Heimasíða norsku ríkisstjórnarinnar, skýrsla starfshópsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert