Spurningin bara hvenær stríð brjótist út

Mótmælendur brenna fána Bandaríkjanna og Ísraels vegna vígs Qassims Soleimani …
Mótmælendur brenna fána Bandaríkjanna og Ísraels vegna vígs Qassims Soleimani og Abu Mahdi al-Mohandis í borginni Lahore í Pakistan. Mótmæli hafa brotist út víða. AFP

Víg íranska herforingjans Qasims Soleimani, sem féll þegar Bandaríkjamenn gerðu drónaárás á bílalest hans við alþjóðaflugvöllinn í Bagdad höfuðborg Íraks, er einn stærsti atburður sem átt hefur sér stað í Mið-Austurlöndum í áratugi.

Þetta segir Charles Lister, sérfræðingur við bandarísku hugveituna Middle East Institute, í greiningu á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Lister segir víg Soleimanis þannig mun stærri atburð með tilliti til vægis og mögulegra afleiðinga en víg Osama bin Ladens, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, árið 2011 og víg Abus Bakr al-Baghdadi, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, á síðasta ári.

Víg Soleimanis feli í sér að deilur Bandaríkjanna og Írans hafi stórversnað. Talið sé að stjórnvöld í Ísrael hafi til þess látið það ógert að ráðast á Soleimani af ótta við afleiðingar þess að vega næstvaldamesta mann Írans. Dauði Soleimanis sé áfall fyrir Íran en „píslarvættisdauði“ hans muni líklega leiða til hefndaraðgerða.

Staða Bandaríkjamanna í Sýrlandi veikari

Lister segir það koma á óvart að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi fyrirskipað að Soleimani skyldi veginn í ljósi áherslu hans á að forðast þátttöku Bandaríkjanna í kostnaðarsömum stríðsátökum. Með dauða Soleimanis sé stríð á næsta leiti. Það virðist ljóst að sögn hans. Spurningin sé einungis hvar, hvenær og hvernig.

Herforinginn Qasem Soleimani sem féll í drónaárás Bandaríkjamanna.
Herforinginn Qasem Soleimani sem féll í drónaárás Bandaríkjamanna. AFP

Þrátt fyrir yfirburði Bandaríkjanna á heimsvísu í hefðbundnum hernaði hafi Íran forskot þegar komi að óhefðbundnum hernaðaraðgerðum eins og eldflaugaárásum, sprengjuárásum og launmorðum og hefndaraðgerðir íranskra stjórnvalda vegna vígs Soleimanis því líklegar til þess að verða með einhverjum slíkum hætti.

Þannig geti afleiðingarnar af vígi Soleimanis orðið mjög víðtækar. Til að mynda bendir Lister á að með víginu hafi staða Bandaríkjamanna í Sýrlandi veikst enn frekar eftir að dregið hafi verið úr bandarísku herliði í landinu og trúverðugleiki þeirra beðið hnekki eftir að þeir drógu til baka stuðning sinn við Kúrda.

Bandamenn Bandaríkjanna skotmörk

Lister segir nær öruggt að bækistöðvar Bandaríkjamanna í Írak, bæði herstöðvar og sendiráð, verði fyrir einhvers konar árásum. Víg Abu Mahdi al-Mohandis, eins forystumanna herdeildar innan íraska hersins sem einkum hefur barist gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams sem einnig var í bílalestinni, hafi enn fremur snúið tugum þúsunda liðsmanna sveitanna gegn veru Bandaríkjanna í landinu.

Þrýstingur muni aukast á þing Íraks að afþakka frekari veru Bandaríkjamanna í Írak. Víg Soleimanis kunni einnig að hafa alvarlegar afleiðingar á sviði öryggismála fyrir Ísrael og aðra bandamenn Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum; Sádi-Arabíu, Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Þá sé herstöðin al-Udeid í Katar líklegt skotmark.

Vafalaust muni margir fagna dauða Soleimanis enda hafi hann meðal annars átt þátt í að skipuleggja stríðsglæpi Sýrlandsstjórnar þar í landi. Hins vegar sé líklegt að afleiðingar vígs hans muni bitna meðal annars á almennum borgurum í Sýrlandi.

Abu Mahdi al-Mohandis.
Abu Mahdi al-Mohandis. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert