Booker heltist úr lestinni

Nafn Cory Booker verður ekki á kjörseðlinum þegar demókratar velja …
Nafn Cory Booker verður ekki á kjörseðlinum þegar demókratar velja sér forsetaefni á næstunni. AFP

Cory Booker, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins, tilkynnti í dag að hann ætlaði að draga sig í hlé í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar í haust.

Booker sagði í yfirlýsingu í dag að hann skorti fé til þess að halda áfram með framboð sitt og að hann sæi ekki fram á að geta safnað því á næstunni þar sem hann nýtur ekki nægilegs fylgis til þess að fá að taka þátt í næstu kappræðum frambjóðenda demókrata.

Booker var kjör­inn á þing árið 2013, en áður hafði hann verið borg­ar­stjóri Newark í New Jersey.

Stjórnmálaskýrendur vestanhafs veltu því sumir upp í dag hvort einhverjir þeirra sem eftir standa í kapphlaupinu um tilnefningu demókrata myndu leita til Booker um að verða varaforseti, en keppinautar Booker hrósuðu honum ákaft fyrir hans innlegg í baráttuna í dag.

„Þú gerðir stjórnmálin betri bara með því að bjóða þig fram,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Joe Biden, sem þykir einna líklegastur til þess að etja kappi við Donald Trump fyrir hönd demókrata í kosningunum í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert