Dómsmálaráðherra kvartar yfir tístum forsetans

Ummæli Barr eru sögð bera merki þess að dómsmálaráðherrann sé …
Ummæli Barr eru sögð bera merki þess að dómsmálaráðherrann sé orðinn þreyttur á framgöngu forsetans, en hann hefur hingað til verið talinn banda- og stuðningsmaður Trump. AFP

William Barr segir tíst Donalds Trump Bandaríkjaforseta grafa undan starfi hans sem dómsmálaráðherra og geri honum nánast ómögulegt að sinna starfi sínu.

„Ég held það sé kominn tími til að hætta að tísta um málefni dómsmálaráðuneytisins,“ sagði Barr í viðtali við fréttastofu ABC, en mál Rogers Stone, fyrrverandi stjórnmálaráðgjafa forsetans sem hefur verið sakfelldur fyrir að hindra framgang réttvísinnar, að bera ljúgvitni fyrir þingi og hafa áhrif á framburð annarra vitna, hefur verið í hámæli undanfarna daga.

Ummæli Barr eru sögð bera merki þess að dómsmálaráðherrann sé orðinn þreyttur á framgöngu forsetans, en hann hefur hingað til verið talinn banda- og stuðningsmaður Trump.

Barr hefur verið sakaður um að láta undan þrýstingi frá forsetanum, en fyrrnefndur Stone bíður enn eftir uppkvaðningu refsingar og hafði saksóknari mælst til þess að honum yrði gert að sæta sjö til tíu ára langri fangelsisvist.

Trump sagði málið allt mjög ósanngjarnt og síðar sama dag fór dómsmálaráðuneytið gegn ráðleggingum saksóknara sinna og sagði refsinguna of harða.

Frétt BBC

mbl.is