Stungu lögreglumann til bana í Róm

Frá útför Mario Cerciello Rega í lok júlí.
Frá útför Mario Cerciello Rega í lok júlí. AFP

Réttarhöld yfir tveimur bandarískum námsmönnum sem eru ákærðir fyrir að hafa stungið lögreglumann til bana í Róm hefjast á miðvikudag.

Finnegan Lee Elder og Gabriel Natale-Hjorth eru ákærðir fyrir að hafa stungið lögreglumanninn Mario Cerciello Rega, 35 ára, til bana í júlí. Hann var stunginn 11 sinnum en Elder, sem hélt á hnífnum, segist hafa talið að lögreglumaðurinn væri eiturlyfjasali. Þeir eiga yfir höfði sér lífstíðardóm verði þeir fundnir sekir.

Mjög hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum á Ítalíu. Ekki síst fyrir þá sök að Cerciello var nýlega kvæntur. Jafnframt hafa mistök lögreglunnar verið rædd, þar á meðal að hafa bundið fyrir augu Natale-Hjorth á meðan hann var yfirheyrður. Hefur málinu verið líkt við mál Amöndu Knox, bandarískrar stúdínu sem var dæmd og síðar sýknuð af morði á Ítalíu árið 2007.

Elder, sem er búsettur í Kaliforníu, var í Róm ásamt skólabróður sínum, Natale-Hjorth, þegar atvikið átti sér stað. 

Cerciello og vinnufélagi hans, Andrea Varriale, höfðu fengið upplýsingar um það frá fíkniefnasala að hann hafi selt Elder og Natale-Hjorth verkjalyf í stað kókaíns og þeir stolið poka hans í hefndarskyni.

Lögreglumennirnir fengu upplýsingar um að tvímenningarnir hafi ætlað að hitta eiturlyfjasalann á tilteknum stað þar sem salinn ætlaði að afhenda þeim peninga og kókaín í stað pokans. Hótel ungu mannanna, en Elder er núna tvítugur að aldri, og Natale-Hjorth er átján ára, var þar skammt frá. Aldrei varð af vöruskiptunum og ólíkar lýsingar á atvikum hafa komið fram.

Mynd af hnífnum sem Mario Cerciello Rega var stunginn til …
Mynd af hnífnum sem Mario Cerciello Rega var stunginn til bana með. AFP

Elder sagði lögreglu að lögreglumennirnir hefðu komið að þeim aftan frá þar sem þeir voru innikróaðir í horni dimmrar götu. Þeir hafi haldið að lögreglumennirnir væru óþokkar sem fíkniefnasalinn hefði sent á þá. Lögreglumaðurinn Varriale er helsta vitni saksóknara í málinu. Hann segir að þeir Cerciello hafi verið borgaralega klæddir og sagt piltunum að þeir væru lögreglumenn. Elder hafi þrátt fyrir það tekið upp hníf og ráðist á Cerciello á meðan Natale-Hjorth tókst á við Varriale.

Unglingarnir flúðu af vettvangi inn á hótelherbergi sitt í nágrenninu þar sem lögreglan fann síðar hermannahníf falinn á bak við klæðningu í lofti. Myndir úr öryggismyndavélum sýna lögreglumennina koma á vettvang og ungu mennina forða sér af vettvangi. Árásin stóð yfir í 32 sekúndur.

Samkvæmt ítölskum lögum er Natale-Hjorth einnig ákærður fyrir manndráp þrátt fyrir að hafa ekki stungið Cerciello, þar sem um lögreglumann er að ræða.

Sasóknari ætlar að leggja fram Instagram-myndir af Elder með hnífinn og peningabúnt og herma heimildir AFP-fréttastofunnar að ætlunin sé að sýna hann sem ríkan ungling sem notar fíkniefni og hikar ekki við að beita ofbeldi. Hann hefur áður komist í kast við lögin því hann særði samnemanda sinn alvarlega í San Francisco þegar þeir kepptu (ólöglega) í hnefaleikum.

Heimilir AFP úr röðum fjölskyldu Elders herma að afar illa hafi verið komið fram við piltinn af lögreglu, bæði hafi verið sparkað í hann og hann barinn auk þess sem lögreglumennirnir sem önnuðust yfirheyrslurnar hræktu á hann.

Í síðustu viku sagði verjandi Elders, Renato Borzone, að samtal milli Elder og föður hans, sem var lekið til fjölmiðla, hafi verið illa þýtt. Í ítalskri þýðingu kemur fram að Elder hafi vitað að Cerciello hafi verið lögreglumaður. Fjölskyldan hefur látið þýða samtalið að nýju og þar er nú haft eftir Elder að þeir hafi ekki sýnt neitt, það er lögreglumerki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert