Yfirmaður í bandaríska sjóhernum segir af sér

Thomas Modly var starfandi ritari bandaríska sjóhersins.
Thomas Modly var starfandi ritari bandaríska sjóhersins. AFP

Settur flotamálaráðherra Bandaríkjanna, Thomas Modly, hefur sagt af sér í kjölfar mikillar óánægju með viðbrögð hans vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í flugmóðurskipinu Theodore Roosevelt.

Modly gerði skipstjóra skipsins, Brett Crozier, að taka hatt sinn og staf í kjölfar þess að sá síðarnefndi sendi varnarmálaráðuneytinu ítarlegt bréf þar sem hann lýsti alvarlegu ástandi á skipinu og óskaði eftir hjálp hið snarasta. 

Bréfinu var lekið til fjölmiðla og var Modly ekki par sáttur. Þá bætti myndskeið af áhafnarmönnum flugmóðurskipsins að fagna Crozier þar sem hann yfirgaf skipið ekki úr skák.

Theodore Roosevelt var á siglingu á Kyrrahafinu en lagðist að bryggju í Gvam þegar kórónuveiran fór að breiðast út á meðal skipverja. Modly flaug til Gvam á mánudag og fengu skipverjarnir orð í eyra fyrir að hafa fagnað Crozier, en í upptöku sem lekið hefur verið til fjölmiðla segir Modly að Crozier hafi haft verulega rangt fyrir sér og að hann sé einfaldur og heimskur og hafi ekki þurft að leika Ernest Hemingway.

Modly baðst fljótlega afsökunar á framferði sínu og sagðist hvorki halda að Crozier væri heimskur né einfaldur. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann gæti hugsað sér að skerast í leikinn, en að sögn Marks Espers, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði Modly af sér að eigin frumkvæði.

Skipstjóranum Brett Crozier var gert að yfirgefa flugmóðurskipið Theodore Roosevelt …
Skipstjóranum Brett Crozier var gert að yfirgefa flugmóðurskipið Theodore Roosevelt eftir bréfaskriftirnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert