Trump boðar breytingar á banni

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar að kynna í dag hvernig staðið verði að breytingum á samkomubanni þar og segir að kórónuveiran hafi náð hámarki þar í landi. Aldrei hafa jafn margir látist af völdum veirunnar í Bandaríkjunum og í gær.

Yfir 136 þúsund eru látnir og meira en tvær milljónir jarðarbúa hafa greinst með smit. Síðasta sólarhringinn létust 2.600 í Bandaríkjunum. Alls hafa um 640 þúsund Bandaríkjamenn smitast af veirunni og yfir 30.800 þeirra hafa látist.

Að sögn Trump hafa óvægnar aðgerðir hans gagnvart veirunni skilað árangri og að tölurnar sýni að toppnum sé náð á landsvísu hvað varðar ný smit. Hann telur að hægt verði að aflétta banni í þeim ríkjum sem hafa ekki orðið illa út úr kórónuveirufaraldrinum fyrir 1. maí. 

Leiðtogar heims glíma við þann vanda þessa dagana að ákvarða hvernig eigi að snúa aftur til eðlilegs lífs og koma hagkerfum ríkja í gang að nýju án hættu á að ný bylgja smita fylgi í kjölfarið. 

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hvetur til mikillar varúðar á sama tíma og hún tilkynnti um fyrstu skrefin við að opna verslanir og hefja skólastarf að nýju. Í Danmörku hófst skólastarf að nýju hjá yngstu aldurshópunum í gær og Helsinki er laus úr einangrun. Í Litháen verður heimilt að opna litlar verslanir að nýju í dag og í Íran verður einhverjum litlum fyrirtækjum heimilt að hefja starfsemi að nýju í dag. Þar í landi hafa tæplega fimm þúsund látist úr COVID-19.

Í næstu viku er stefnt að því að hefja afléttingu í áföngum í Nýja-Sjálandi en forsætisráðherra landsins, Jacinda Ardern, varar við því að það sé langt frá því að lífið sé að verða eins og það var áður.

Fastlega er gert ráð fyrir að síðar í dag muni bresk yfirvöld tilkynna um að samkomubannið verði framlengt og í Belgíu er í gildi bann við því að fara að heiman til 3. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert