Skólar í Danmörku opnaðir á ný

Skólahald hófst á ný víða í Danmörku í morgun í leik- og grunnskólum. Öllum skólum í landinu var lokað 12. mars vegna kórónuveirunnar. Börn 11 ára og yngri geta sest á skólabekk á ný. BBC greinir frá. 

Þrátt fyrir að það megi opna alla skóla kjósa mörg sveitarfélög að gera það ekki strax því þau telja sig þurfa lengri tíma til að laga sig að hertum sóttvarnareglum. Allir þurfa að vera duglegir að þvo sér um hendur og halda tveggja metra fjarlægð. 

Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, tók á móti börnum sem mættu í skólann í Kaupmannahöfn, höfuðborg landsins. Hún sagðist ennfremur skilja þá foreldra sem kysu að halda börnum sínum heima af ótta við smit.  

Alls hafa 299 látist af völdum kórónuveirunnar í Danmörku og 6.681 greinst með veiruna. Talið er að mun fleiri beri hana.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur tók á móti nemendum.
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur tók á móti nemendum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert