Skýrir fyrirbærið sem olli ókyrrðarslysinu

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir heiðkviku skýra slysið sem varð í …
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir heiðkviku skýra slysið sem varð í háloftunum í gær. Samsett mynd

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, segir að ókyrrðarslys Boeing-vélar Singapore Airlines megi rekja til svokallaðrar heiðkviku. Vélin reis fyrst í skyndi um 300 fet áður en hún féll niður um þúsundir feta á þremur mínútum.

„Þessi ókyrrð er sérstök að því leyti að hún stafar ekki af fjöllum eða óveðri heldur er þetta í hreinu og tæru lofti. Kallast heiðkvika og verður vegna skyndilegra vindbreytinga. Yfirleitt minnkar eða eykst vindur hratt og það skapar þess ókyrrð,“ segir Einar.

Breskur maður á áttræðisaldri lést í fluginu, að líkindum vegna hjartaáfalls og einn Íslendingur var um borð í vélinni. 

Getur komið verulega á óvart

Hann segir varað við þessu á flugkortum sem vanalega eru grandskoðuð áður en haldið er af stað.

„Þegar verið er að vara við svona svæðum þá reyna flugstjórar að forðast þau. Það er gert með því að óska eftir því að hækka eða lækka flughæð. Engu að síður getur þetta komið verulega á óvart, líkt og tilfellið var í gær,“ segir Einar.

Singapore Airlines þykir eitt besta flugfélag í heimi.
Singapore Airlines þykir eitt besta flugfélag í heimi. AFP

Hann segir að heiðkvika eigi sér stað í heiðhvolfi sem er fyrir ofan veðrahvolfið. Um sé að ræða skyndilega iðuvinda.

„Þetta er eins og pípulagnir. Venjulega streymir þar reglulega en þegar loft kemst í það þá ferðu að heyra í rennslinu. Þarna eiga sér stað breytingar í vindsviðinu og skyndileg kröpp sveigja getur t.d. valdið þessari ókyrrð,“ segir Einar.

Fljúga á mörkunum 

Algengara er orðið að heiðkvika myndist sem tengja má við breytingar í hitastigi vegna loftslagsbreytinga. Á meðan veðrahvolfið hlýnar (neðstu 12-15 km) vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa á sér stað kólnun ofar, þ.e. í heiðhvolfinu. Það gerist þar sem lofthjúpurinn þarf að ná nýju geislunarjafnvægi.

„Flugvélar eru nokkurn vegin á mörkum heiðhvolfs og veðrahvolfsins og þess vegna verður meira vart við þessar heiðkvikur,“ segir Einar.

„Því er best að vera alltaf spenntur niður í sætið á meðan á flugi stendur og forðast allt óþarf ráp,“ segir Einar.

Hann segir ekki síst hafi orðið vart við þessar breytingar á Norður-Atlantshafinu. Mest nokkuð sunnan við Ísland. Sérstaklega á leið á milli Evrópu og Ameríku.

Nánar á Blika.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert