„Eins og mér hefði verið dúndrað upp í loftið“

Aron útskrifaðist af sjúkrahúsi í gær.
Aron útskrifaðist af sjúkrahúsi í gær. Ljósmynd/Aðsend

Aron Matthíasson, sérfræðingur í þjónustu hjá Marel, slasaðist alvarlega þegar ókyrrð í háloftunum setti allt úr skorðum í flugi frá Lundúnum til Singapúr í síðustu viku. Hann var í vinnuferð á leið til Nýja-Sjálands þegar slysið varð. Aron segist þakklátur fyrir að ekki fór verr en hann hlaut höfuðhögg í ókyrrðinni sem varð til þess að einn hálshryggjarliða þríbrotnaði og þar að auki brotnuðu þrjú rifbein í átökunum.

DV ræddi fyrst við Aron. 

 „Já, þetta er náttúrulega mjög skrítið, að vera einn á ferðalagi og lenda í þessari stöðu. En það er samt alveg magnað hvað það voru margir sem að voru tilbúnir til þess að leggja fram hjálparhönd, bæði ræðismaður Íslands hér í Bangkok og Alþjóðatryggingastofnunin. Singapore Airlines hafa verið alveg ótrúlega flottir með fullt af starfsfólki til að gera allt fyrir mann.  [...] Þau tóku þessu mjög persónulega og vildu gera allt sem hægt væri að gera fyrir alla,“ segir Aron í samtali við mbl.is.

Foreldrunum flogið til Bangkok á fyrsta farrými

Hann segir forstjóra flugfélagsins hafa komið á sjúkrahúsið og heilsað upp á alla á meðan á dvöl þeirra stóð. Foreldrum hans hafi einnig verið flogið af flugfélaginu, á fyrsta farrými, til Bangkok og hafi þau lent á staðnum nú á sunnudag. Aron útskrifaðist af sjúkrahúsi í gær og safnar nú kröftum til þess að komast heim.

Aðspurður hvenær hann vænti þess að geta farið heim til Íslands segir hann það undir sér komið. Ekkert á myndum sýni fram á að það yrði hættulegt fyrir hann að fljúga, engar bólgur í heila eða slíkt.

„Ég á erfitt með að sitja í lengri tíma en tíu mínútur í einu og þessháttar af því að vöðvarnir í hálsinum eru líka allir mjög þreyttir, þannig ég er bara að ná mér í styrk aðeins áður en ég legg af stað,“ segir Aron.

„Hvað í andskotanum ertu að gera á gólfinu Aron“

Hvað varðar ókyrrðina örlagaríku segist Aron hafa ákveðið að standa upp til þess að ná í tölvuna sína þegar um þrjár klukkustundir voru eftir af fluginu. Flugið hafi verið mjög rólegt fram að þessari stundu.

„Í rauninni um leið og ég sest niður þá finn ég svona eins og það sé að byrja smá ókyrrð, þannig ég ákveð að drífa mig í beltið en ég var ekki nógu fljótur. Það í rauninni var enginn fyrirvari áður en þetta gerðist, það var bara ein, tvær sekúndur, smá ókyrrð og svo bara eins og mér hefði verið dúndrað upp í loftið,“ segir Aron. Hann hafi ekki áttað sig á því í fyrstu hversu alvarlegt og mikið höggið var í raun.

„Þegar ég ranka við mér á gólfinu þá sé ég að allir eru í sínum sætum og engin ókyrrð í gangi og ég hugsa bara, varð svona pínu vandræðalegur: Hvað í andskotanum ertu að gera á gólfinu Aron, drífðu þig í sætið þitt.“

Aron er með þríbrotinn hálshryggjarlið og þrjú brotin rifbein eftir …
Aron er með þríbrotinn hálshryggjarlið og þrjú brotin rifbein eftir slysið. Ljósmynd/Aðsend

Ætlaði að harka af sér og halda áfram 

Aron segir vélina hafa verið illa útlítandi eftir atvikið og annan hvern mann hafa verið með skurð á hausnum. Hann er þakklátur ástralskri konu sem sat við hliðina á honum í fluginu, hjálpaði honum að róa sig niður og bera töskur. Við lendingu í Bangkok hafi þeir sem hafi verið mest slasaðir verið fluttir á sjúkrahús á börum um leið, þrjóskan í Aroni hafi tekið yfir og hann hafi ætlað sér að halda vinnuferðinni áfram daginn eftir, eftir eina nótt af hvíld. Hann hafi þó áttað sig á því að það hafi ekki allt verið með feldu.

„Ég er bara svo þrjóskur og vongóður, jákvæður kannski, að ég hugsaði alltaf: Æji, ég þarf bara að harka þetta af mér núna í kvöld og svo verð ég betri á morgun. En þau mældu með því að ég myndi fara upp á sjúkrahús, sem er bara eins gott og þau gerðu því ég veit ekki hvaða stöðu ég hefði verið fastur í í Nýja-Sjálandi.“

En þú ætlaðir þér bara að halda ferðalaginu áfram daginn eftir eða hvað?

„Já, já. Ég sagði við vinnufélagana að ég þyrfti nú kannski að vera uppi á spítala í nótt en vonandi hefði það ekki áhrif á vinnuferðina, ég kæmi kannski bara á morgun,“ segir Aron.

Gat ekki staðið upp í fjóra daga en mænan ósködduð

Aron lýsir síðustu dögum sem erfiðum en hann hafi ekki getað staðið upp úr rúminu fyrstu fjóra dagana.

„Ég fékk allan mat bara beint upp í rúm, ég var þrifinn uppi í rúmi, pissaði í dollu en svo allt í einu einn daginn, svona á fimmta degi gat ég farið að standa upp. Síðan þá hefur hver dagur verið betri og betri,“ segir Aron. Hálshryggjarliður C6 sé þríbrotinn eftir slysið, en hafi þó blessunarlega ekki skaddað mænuna. Þar að auki séu þrjú rifbein brotin.

Við taki nú bataferli þar sem hann þurfi að vera með hálskraga í tvo mánuði, passa vel allar hreyfingar og fara í aðra segulómmyndun eftir 6 til 8 vikur en þá komi í ljós hvort hann þurfi að fara í aðgerð eða hverskonar meðhöndlun hann muni þurfa í framhaldinu. Hann segist því viss um að hann þurfi að fara í einhverja sjúkraþjálfun.

Hann játar því að hann sakni fjölskyldunnar mikið og hlakki til að komast heim en hann sé þakklátur Singapore Airlines fyrir að hafa flogið foreldrum sínum til sín. Flugfélagið borgi einnig fyrir gistingu fyrir hann í Bangkok þar til hann treysti sér til að leggja leið sína heim. Hann ætli sér klárlega að fljúga með þeim aftur, enda ekki við flugfélagið að sakast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert