Örfá atkvæði kunna að skilja milli sigurvegara og næstu frambjóðenda

Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir deila með …
Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir deila með sér efsta sætinu samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Prósents. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðað við niðurstöður nýjustu könnunar Prósents mun þessi vika helgast af kosningabaráttu á yfirsnúningi hjá helstu frambjóðendum.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Halla Tómasdóttir forstjóri og Katrín Jakobsdóttir, fv. forsætisráðherra, virðast allar vera með sama fylgið á bilinu 20-21%, en miðað við það kunna örfá atkvæði að skilja milli sigurvegara forsetakjörs næsta laugardag og næstu frambjóðenda.

Baldur Þórhallsson er þar ekki ýkja langt á eftir svo hraustleg barátta hans í lokavikunni gæti vel fært honum sigurinn áður en yfir lýkur.

Þegar svo mjótt er á munum kunna úrslit svo eins að ráðast af þáttum sem frambjóðendur hafa takmörkuð áhrif á. Þar kann kjörsókn að ráða mestu, en hún er mismikil eftir aldri og jafnvel veðrið getur haft áhrif (Veðurstofan spáir suðvestanátt og rigningu á suðvestanlands).

Eins er viðbúið að ef fylgjendur tiltekinna frambjóðenda eru vondaufir um sigur séu þeir einnig líklegri til þess að sitja heima.

Á móti getur gætt tilhneigingar til þess að láta atkvæðin hafa áhrif, að styðja þá sem líklegir eru til sigurs, en eins og rakið er á forsíðu Morgunblaðsins virðist Katrín Jakobsdóttir hafa töluvert forskot að því leyti. Það kann að hafa eitthvert forspárgildi um hvernig atkvæði óráðinna falla frekar þegar á hólminn er komið í kjörklefanum.

Vonlaust að kjósa af kænsku

Katrín hefur hins vegar sætt nokkru andófi fólks, einkum á vinstrivængnum, sem ekki er sátt við stjórnmálaferil hennar. Einu framboði var meira að segja sérstaklega beint gegn henni, þó það hafi lítinn hljómgrunn fundið. Fleiri virðast þó á þeim buxum, sem er að nokkru stutt niðurstöðum í könnunum, sem sýna að hún er síður „annar kostur“ en aðrir efstu menn. Þar eru Baldur Þórhallsson og Halla Tómasdóttir oftast nefnd.

Það kann að hafa sitt að segja sjái menn fyrir sér taktíska atkvæðagreiðslu, þar sem fólk kýs fremur þann sem það telur líklegastan til þess að fella þann sem það vill ekki, en þann sem það helst vildi sjá á Bessastöðum.

Eins og sakir standa er hins vegar ekkert sem bendir til þess að fólk hafi slíkt val. Þegar efstu frambjóðendur eru svo jafnir eru slíkar tilraunir fálm í myrkri. Rétt eins og að það er marklaus óskhyggja að halda að einhver vilji draga sig í hlé á þessu stigi til þess að auðvelda slíkt; það eiga allir fjórir efstu jafna von um sigur.

Munur á könnunum

En er fylgi efstu manna svo jafnt sem niðurstöður Prósents benda til? Það er ógerningur að slá nokkru föstu um það vegna vikmarkanna. Halla Hrund gæti verið með 19% og Halla Tómasar gæti verið með 22%. Eða öfugt, því kannanir eru ekki nákvæmar og svo getur allt breyst á næstu dögum.

Við bætast mismunandi aðferðir þeirra fyrirtækja sem gera slíkar skoðanakannanir, en eins og sjá má mælist Katrín með verulega minna fylgi í könnunum Prósents en hjá Gallup og Maskínu. Það á ekki aðeins við um síðustu kannanir heldur allar kannanir frá í apríl. Þar ræður mögulega aðferðafræðileg skekkja, en varla verður ljóst fyrr en á sunnudagsmorgun hvar hún liggur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert