Þrjár efstu hnífjafnar með rúm 20% inn í lokavikuna

Miðað við það virðist óhætt að fullyrða að um næstu …
Miðað við það virðist óhætt að fullyrða að um næstu helgi bíði þjóðarinnar mest spennandi forsetakjör í sögu lýðveldisins. Samsett mynd

Þrír forsetaframbjóðendur deila með sér efsta sætinu samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið. Þær Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir eru þar allar saman í hnapp með á bilinu 20,1% til 21,0% fylgi, sem er langt í frá tölfræðilega marktækur munur, en vikmörk þeirra ná frá 18,1% upp í 23,2%.

Miðað við það virðist óhætt að fullyrða að um næstu helgi bíði þjóðarinnar mest spennandi forsetakjör í sögu lýðveldisins, þar sem örfá atkvæði geta riðið baggamuninn um það hver verði næsti forseti Íslands.

Samkvæmt mælingu Prósents er Halla Hrund Logadóttir með mest fylgi (21,0%), en sem fyrr segir er það svo litlu meira en hjá næstu tveimur frambjóðendum, að ógerningur er að halda því fram að hún hafi orðið þeim hlutskarpari í könnun Prósents, sem hófst liðinn þriðjudag og stóð þar til í gærmorgun.

Enn minni munur er þó á hinum tveimur, en Halla Tómasdóttir mældist með 0,1% meira fylgi en Katrín Jakobsdóttir. Sá munur fólst í tveimur fleiri svörum til handa Höllu Tómasdóttur, sem við blasir að ekki er unnt að draga neinar ályktanir af.

Baldur Þórhallsson mældist með 16,9% fylgi, sem er marktækt minna en fylgi Höllu Hrundar, en efri vikmörk hans skarast hins vegar lítillega við lægri vikmörk Höllu Tómasdóttur og Katrínar. Hann á því vel möguleika á að blanda sér í baráttuna á lokasprettinum.

Fylgi Jóns Gnarrs minnkaði hins vegar áfram, svo ólíklegt verður að teljast að hann komist í fremstu röð úr þessu. Til þess þyrfti hann að tvöfalda fylgið í vikunni. Arnar Þór Jónsson jók nokkuð við sig fylgið og er nú með 6,4%, en þyrfti að meira en þrefalda það til þess að skáka efstu mönnum miðað við þessa könnun.

Hins vegar er enn sem fyrr athyglisvert að líta til þess, hvaða frambjóðanda svarendur telja líklegastan til sigurs, óháð því hver þeir vildu helst að hefði sigur. Að einhverju leyti endurspegla þau svör niðurstöður annarra kannana, en þau eru líka til þess fallin að draga fram falið fylgi eða óráðið.

Þar hefur Katrín Jakobsdóttir tekið afgerandi forystu á alla aðra frambjóðendur, en nær 45% telja að hún verði næsti forseti Íslands. Þar er Katrín að fá meira en tvöfalt meira en næsti frambjóðandi á eftir og meira en tvöfalt uppgefið fylgi í könnuninni.

Halla Hrund er næst á eftir með nánast hið sama og fylgi hennar, en hins vegar virðast fylgjendur Baldurs orðnir vantrúaðri á sigur hans og ekki eru allir fylgjendur Höllu Tómasdóttur sannfærðir um sigur heldur.

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert