Verkföll vofa yfir stærstu flugvöllum

Gardermoen-flugvöllurinn við Ósló er annar þeirra sem verkfall gæti þrengt …
Gardermoen-flugvöllurinn við Ósló er annar þeirra sem verkfall gæti þrengt að þegar í dag. Ljósmynd/Wikipedia.org/Espen Solli

Hætta er á að verkfall lami tvo stærstu flugvelli Noregs semjist ekki um kaup og kjör milli verkalýðssamtakanna Fellesforbundet og NHO Luftfart þar sem fara vinnuveitendur í fluggeiranum. Er deilan nú þegar á borði Carls Petters Martinsens ríkissáttasemjara sem segir norska ríkisútvarpinu NRK að þótt margt hafi unnist eigi samningsaðilar enn langt í land.

Það eru Gardermoen-flugvöllur við Ósló og Flesland-flugvöllurinn í Bergen sem eru undir og gæti verkfall þar hafist í dag nái Martinsen ekki að miðla málum. Hann segir eftirlaunamál þann samningslið sem enn sé deilt hve harðast um og því sé nokkur hætta á að ekki semjist tímanlega.

Farþegar komi engu að síður

Samningsfresturinn var úti á miðnætti og takist samningar ekki á næstunni fara 447 starfsmenn flugvallanna tveggja í verkfall. Biðja flugfélögin Norwegian og SAS farþega sína að mæta eins og ekkert hafi í skorist, haft verði samband við þá farþega sem verði fyrir áhrifum verkfallsins komi til þess.

Upplýsingafulltrúum flugfélaganna er ekki kunnugt um hver nákvæmlega áhrifin á flugumferð dagsins yrðu kæmi til verkfalls. Einhverjir farþegar gætu hugsanlega fengið að breyta miðum sínum án aukakostnaðar og komist leiðar sinnar. „Fyrst þegar verkfall hefst vitum við hvernig það hefur áhrif á einstök flug,“ segir Irena Busic, upplýsingafulltrúi SAS.

Þeir sem færu fyrst í verkfall á völlunum tveimur yrðu flugvirkjar, flugumferðarstjórar, starfsfólk við innskráningu og í farangursafgreiðslu.

NRK

TV2

E24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert