Trump telur að WHO hafi vitað hvað var í gangi

Trump hélt áfram að gagnrýna WHO á fundinum í dag.
Trump hélt áfram að gagnrýna WHO á fundinum í dag. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt áfram að gagnrýna Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) á daglegum blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í Hvíta húsinu í dag. „Ég hef á tilfinningunni að þeir hafi vitað nákvæmlega hvað var í gangi,“ sagði hann meðal annars. En í gær sagðist hann ætla að stöðva fjárframlög til stofnunarinnar á meðan farið yrði yfir það hvernig hún hefði brugðist í baráttunni við kórónuveiruna og reynt að hylma yfir útbreiðsluna. Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa í dag gagnrýnt ákvörðun hans.

Trump hefur sakað WHO um að vera hlutdræga gagnvart Kína og það að stofnunin hafi tekið öllum upplýsingum frá Kínverjum sem staðreyndum hafi tuttugufaldað fjölda kórónuveirutilfella í heiminum. Jafnvel meira. „Svo mörg dauðsföll hafa orðið vegna þeirra mistaka,“ sagði forsetinn í gær. Í dag benti hann á að WHO hefði gagnrýnt að Bandaríkin hefðu lokað landamærum sínum gagnvart Kínverjum þegar veiran breiddist hvað hraðast út þar.

„Því miður settu aðrar þjóðir allt sitt traust á WHO og settu ekki upp neinar varnir. Þið sjáið hvað gerðist á Ítalíu, þið sjáið hvað gerðist á Spáni og í Frakklandi.“ Trump kallar þetta „hræðileg mistök“ en segir að kannski hafi þeir vitað þetta. „Ég er viss um að þeir gerðu sér ekki grein fyrir umfanginu, eða kannski gerðu þeir það,“ sagði hann jafnframt.

Þá sagðist forsetinn hafa rætt við hátt setta einstaklinga í fjölmörgum greinum, þar á meðal heilbrigðisgeiranum, tækni, fjármálum og landbúnaði. „Við verðum endurkomukrakkarnir, við öll. Morgundagurinn verður stór dagur, þá munum við tala við ríkisstjórana.“ Hann sagði að enduropnun landsins yrði örugg og sterk og hún myndi eiga sér stað fljótt. „Við viljum fá landið okkar aftur. Og við ætlum að fá það fljótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert