Hlýnun jarðar hafi áhrif á milljarða fyrir 2070

AFP

Haldi jörðin áfram að hlýna á sama hraða og síðustu ár gætu um 3 milljarðar jarðarbúa verið búsettir á svæðum sem eru of hlý fyrir manninn árið 2070. 

Í skýrslu sem birtist í tímariti bandarísku vísindaakademíunnar og rituð var af alþjóðlegum hópi fornleifafræðinga, vistfræðinga og loftlagsvísindamanna, kemur fram að ef losun gróðurhúsalofttegunda eykst með sama hraða og undanfarin ár, munu milljarðir búa á svæðum sem eru heitari en mannlegt líf hefur hingað til geta þrifist í. 

Fyrir hverja gráðu sem loftslagið hlýnar um mun milljarður jarðarbúa þurfa að annað hvort flytjast á svalari svæði eða aðlaga sig að geysimiklum hita. Tim Kohler, fornleifafræðingur við háskólann í Washington og einn höfunda skýrslunnar, segir að rannsóknin gefi okkur mynd af því sem koma skal „ef við breytum ekki lífsháttum okkar“, við CNN. 

Stærstur hluti mannkynsins er búsettur á svæðum þar sem meðalhiti yfir árið er á bilinu 11 til 15 gráður. Samkvæmt rannsókninni er fólksfjölgun og efnahagsleg hagsæld meiri á þeim svæðum en hlýrri svæðum. Þetta gæti þó breyst með hlýnun jarðar. 

Ef ekki hægist á hlýnun jarðar telja vísindamenn að meðalhiti á plánetunni muni hafa hækkað um 3 gráður árið 2100. Í skýrslu vísindaakademíunnar kemur fram að rannsóknir bendi til þess að þar sem landsvæði hlýni hraðar en höfin, muni mannkynið líklegast hafa upplifað hitabreytingar sem nemi 7,5 gráðum árið 2070. Meðalhiti sem venjuleg manneskja finnur fyrir mun því líklegast hækka meira á næstu 50 árum en síðustu 6000 ár. Það gæti haft umfangsmikil áhrif á landbúnað, aðgang að drykkjarvatni og stóraukið fólksflutninga á milli svæða. 

„Það er raunhæft að áætla að ef eitthvað hefur verið nokkuð stöðugt í 6000 ár, breytist það ekki hratt eða án vandkvæða,“ segir Kohler.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert