Boða bólusetningu lækna og kennara í september

Vladimir Pútín og stjórnendur á hans vegum eru bjartsýnir um …
Vladimir Pútín og stjórnendur á hans vegum eru bjartsýnir um að bóluefni fyrir veirunni sé á næsta leiti. AFP

Á meðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin talar um að bóluefni fyrir almenning verði líklega ekki tilbúið fyrr en undir árslok 2021 segja Rússar að bóluefni sem rússnesk fyrirtæki hafi þróað gegn kórónuveirunni verði tilbúið til fjöldaframleiðslu í mánuðinum.

Nú stendur yfir leyfisveitingarferli og strax í september á að gefa kennurum og heilbrigðisstarfsfólki bóluefni ef óskað er eftir því. Síðar á árinu á að vera hægt að bólusetja almenning.

Þessu heldur Kirill Dmitrijew fram, framkvæmdastjóri stórs fjárfestingarsjóðs á vegum rússneskra stjórnvalda (Russian Direct Investment Fund). Sjóðurinn er meginfjárfestir í bóluefninu og hefur með höndum þróun þess. Til marks um hve mikla trú stjórnendur hafa á bóluefninu hefur Dmitrijew sjálfur sprautað því í sig og foreldra sína, eins og hann segir í samtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung. Neue Zürcher Zeitung talar í þessu efni um „tímamótaáfangi, þó með spurningarmerki“.

Framleiðsla hefjist í ágúst

„Foreldrar mínir eru báðir sameindalíffræðingar og skilja vel vísindalegan grundvöll fyrir bóluefninu og það geri ég líka. Þetta bóluefni sker sig úr að því leyti að í raun og veru er um að ræða uppfærða útgáfu af bóluefnum sem hafa áður verið þróuð í Rússlandi, gegn ebólu og gegn mers-veirunni [sem er einnig afbrigði af kórónuveirunni]. Þessi bóluefni voru prófuð í meiriháttar klínískum rannsóknum fyrir öryggi og virkni. Þar með hefur Rússland forskot, sem mörgum Vesturlöndum yfirsést: Við höfum þegar vettvang fyrir bóluefnið okkar,“ segir Dmitrijew.

Á grundvelli þessa vettvangs, þessarar reynslu, segir Dmitrijew að hægt sé að veita leyfi fyrir bólusetningum fyrr en ef hans nyti ekki við. 

„Við munum halda okkur við rússnesku viðmiðin um leyfisveitingu. Nú hefjum við þriðja stig klínískra rannsókna, bæði hér í Rússlandi og í öðrum löndum. Ef niðurstaða fyrstu tveggja stiganna er jákvæð fæst leyfi fyrir bóluefnið núna í fyrri hluta ágúst, en sú ákvörðun liggur auðvitað hjá heilbrigðisráðuneytinu. Þá ætlum við að byrja að framleiða bóluefni í ágúst, í september eiga heilbrigðisstarfsmenn og kennarar að geta fengið bólusetningu ef þeir vilja, og fjöldabólusetning meðal almennings á þá að hefjast seinna á þessu ári,“ segir Dmitrijew.

Brasilía. Sjálfboðaliði og hjúkrunarfræðingur, sem sprautar í hann bóluefni í …
Brasilía. Sjálfboðaliði og hjúkrunarfræðingur, sem sprautar í hann bóluefni í prófunarferli fyrir bóluefni fyrir COVID-19. AFP

Prófuðu bóluefnið snemma á sjálfum sér

Blaðamaður FAZ spyr framkvæmdastjórann álits á því að vísindamennirnir á bak við bóluefnið hafi verið fljótir á sér að prófa það á sjálfum sér, jafnvel á meðan það var enn aðeins verið að prófa það á öpum. Þá hvort hermenn hafi verið neyddir til þess að gerast tilraunadýr fyrir efnið, sem hann lætur ósvarað.

„Ég lít á það sem hetjudáð að vísindamennirnir okkar sem þróuðu bóluefnið hafi sjálfir gerst sjálfboðaliðar. Við erum opin fyrir alþjóðlegu samstarfi og tilbúin að deila upplýsingum með Evrópusambandinu,“ segir hann.

Bólusetningin verður í tveimur lotum, þannig að hver og einn kemur fyrst í fyrstu lotu og aftur í þá síðari þremur vikum síðar. Hún á að geta veitt ónæmi í tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert