Trump tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels

Forsetinn Donald Trump á kosningafundi í Norður-Karólínu í gær.
Forsetinn Donald Trump á kosningafundi í Norður-Karólínu í gær. AFP

Þingmaður norska Framfaraflokksins hefur tilnefnt Donald Trump Bandaríkjaforseta til friðarverðlauna Nóbels. Vísar hann til þess að Trump hafi náð að koma á samkomulagi um að virkja stjórnmálalegt samband milli Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

„Ástæðan er sú að hann skapaði einstakt og sögulegt samkomulag milli ríkjanna. Og samkomulag sem við vonumst til að geti verið útvíkkað til annarra arabaríkja svo við getum fengið langvarandi frið í Mið-Austurlöndum,“ segir þingmaðurinn Christian Tybring-Gjedde í samtali við AFP.

Tybring-Gjedde er varaformaður utanríkis- og varnarmálanefndar norska stórþingsins. Hann tilnefndi Trump einnig til verðlaunanna árið 2018 fyrir nálgun sína gagnvart Norður-Kóreu.

Norskir þingmenn eru á meðal þeirra sem geta sent inn tilnefningar til norsku Nóbelsstofnunarinnar. Tilnefningunum er haldið leyndum í fimmtíu ár en þeim sem tilnefna er þó heimilt að upplýsa um val sitt.

Persóna Trumps skipti ekki máli

„Trump á Nóbelinn skilið,“ segir Tybring-Gjedde, „sérstaklega ef þú berð hann saman við fyrri verðlaunahafa.“

Vísar hann til Camp David-samninganna árið 1978 og Óslóarsamninganna árið 1993 og fullyrðir að nýtt samkomulag Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna sé í það minnsta jafn byltingarkennt fyrir Mið-Austurlönd og þeir samningar.

Christian Tybring-Gjedde
Christian Tybring-Gjedde Ljósmynd/Stortinget.no

Spurður hvort hann telji forsetann eiga nokkurn raunhæfan möguleika á að hljóta verðlaunin leggur þingmaðurinn áherslu á að persóna Trumps eigi ekki að skipta nokkru máli.

„Fyrir nóbelsverðlaunahafa, hvort sem þeir eru í bókmenntum eða efnafræði, þá er öllum sama um persónuleika þeirra. Það er ekki persónuleikinn sem ræður því hvort einhver vinnur til verðlaunanna, heldur hvað viðkomandi hefur raunverulega afrekað til að stuðla að friði í heiminum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert