Von og vel­sæmd, vís­indi og sann­leik­ur

Kamala Harris átti erfitt með að fela gleði sína á …
Kamala Harris átti erfitt með að fela gleði sína á fundinum í kvöld. Í ávarpi sínu talaði hún meðal annars til kvenna úr minnihlutahópum. AFP

Kamala Harris hóf sigurfund framboðs þeirra Joes Bidens í forsetakosningunum í Bandaríkjunum með því að minnast orða þingmannsins fyrrverandi Johns Lewis, sem lést í sumar, um mikilvægi þess að standa vörð um lýðræðið. Sagði hún kjósendur í Bandaríkjunum hafa brugðist við ákalli þegar hallaði á lýðræðið og kosið með því. Þá þakkaði hún jafnframt öllum Bandaríkjamönnum fyrir stuðninginn við að telja skyldi öll atkvæði, en Donald Trump, núverandi forseti, hefur farið fram á að talning atkvæða verði stöðvuð.

„Ég stend á herðum þeirra“

Sagði Harris að hún vissi að fólk hefði upplifað erfiða tíma undanfarið, en þjóðin hefði einnig upplifað mikið hugrekki. Sagði hún kjósendur hafa valið von og velsæmd, vísindi og sannleika. Lagði hún, líkt og Biden átti eftir að gera síðar um kvöldið í ræðu sinni, mikla áherslu á vísindi.

Harris talaði inn í hóp kvenna í minnihlutahópum, en sjálf er hún dóttir innflytjenda frá Jamaíku annars vegar og Indlandi hins vegar. Sagði hún að konur sem hefðu komið á undan sér hefðu byggt undir þessa stund og fórnað miklu. Þær hefðu sýnt með því að berjast fyrir lýðræðinu að þær væru hryggjarstykki lýðræðis í landinu og Harris væri nú afrakstur þeirrar baráttu. „Ég stend á herðum þeirra,“ sagði hún.

Kamala Harris á fundinum í kvöld.
Kamala Harris á fundinum í kvöld. AFP

Fyrsta en ekki sú síðasta

Þá sagði hún að þótt hún væri fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta væri hún ekki sú síðasta og uppskar mikil fagnaðarlæti stuðningsmanna sem höfðu fjölmennt fyrir utan Chase center í Wilmington í Delaware. Sagði hún að allar litlar stelpur sem væru að horfa á í kvöld myndu sjá hvað væri hægt og þau tækifæri sem væru í boði og talaði til þeirra um að aðrar konur myndu klappa fyrir þeim áfram á framabraut.

Berjast gegn kynþáttahyggju og fyrir loftslagsmálum

Eins og Biden kom hún inn á að hún myndi vera varaforseti allra Bandaríkjamanna, en tók fram að fram undan væri mikil vinna við að bjarga lífum vegna faraldursins og byggja upp efnahaginn. Þá sagði hún að berjast þyrfti gegn kynþáttahyggju og fyrir loftslagsmálum. Sagði hún þetta ekki auðvelda vinnu, en Bandaríkin væru tilbúin. „Og það erum við Joe líka,“ bætti hún við.

Kamala Harris og Joe Biden ásamt fjölskyldum sínum á sviðinu …
Kamala Harris og Joe Biden ásamt fjölskyldum sínum á sviðinu í Wilmington í Delaware í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert