Fyrst til að fá bólusetningu

Níræð kona frá Norður-Írlandi varð fyrsta manneskjan til þess að vera bólusett með bóluefni Pfizer/BioNTech við kórónuveirunni utan þeirra sem tóku þátt í klínískum rannsóknum fyrirtækjanna. Hún var sú fyrsta sem var bólusett í Bretlandi en þar er hafin viðamikil áætlun um að bólusetja þorra þjóðarinnar.

Margaret Keenan, sem er frá Enniskillen, segir í samtali við BBC að hún líti á það sem forréttindi að fá bólusetningu en hún var bólusett við háskólasjúkrahúsið í Coventry.

Margaret Keenan segist hafa fengið snemmbúna afmælisgjöf í ár.
Margaret Keenan segist hafa fengið snemmbúna afmælisgjöf í ár. AFP

Í Bretlandi er nú byrjað að bólusetja íbúa landsins sem eru komnir yfir áttrætt auk hluta heilbrigðisstarfsfólks og fólks í umönnunarstörfum. Áætlunin gerir ráð fyrir því að verja þá sem eru í viðkvæmri stöðu og að lífið geti færst í eðlilegt horf að nýju.

Keenan var bólusett klukkan 6:30 í morgun. Hún segir að þetta sé besta afmælisgjöf sem hún hafi getað hugsað sér og loksins geti hún horft fram á við. Að eyða tíma með fjölskyldu og vinum á nýju ári. Í ár hafi hún verið ein nánast allan tímann. Hún geti seint fullþakkað starfsfólki heilbrigðiskerfisins hversu vel það hafi hugsað um hana. „Mitt ráð til allra þeirra sem er boðið bóluefni – þiggið það. Ef ég get fengið það níræð þá ættir þú að geta fengið það einnig.“

Keenan var sprautuð af hjúkrunarfræðingnum May Parsons á sjúkrahúsinu sem er nálægt heimili hennar í Coventry. Keenan verður 91 árs í næstu viku og starfaði í skartgripaverslun þangað til hún fór á eftirlaun fyrir fjórum árum að því segir í frétt Guardian. Hún á dóttur og son og fjögur barnabörn. 

Frétt BBC

Þeir sem eru bólusettir í herferð Breta fá tvær bólusetningar, sú síðari er eftir þrjár vikur. Dagurinn í dag er nefndur V-Day í breskum miðlum eða bólusetningardagurinn.

Í síðustu viku urðu Bretar fyrsta landið til þess að veita leyfi fyrir bóluefni Pfizer-BioNTech en bólusetning er helsta von heimsins í baráttunni vð farsótt sem þegar hefur kostað yfir eina og hálfa milljón lífið. Í Bretlandi eru staðfest smit 1,6 milljónir talsins en af þeim eru yfir 61 þúsund látin.

AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir daginn í dag mikilvægan og í dag verði stórt skref stigið í baráttunni við Covid-19. Johnson veiktist sjálfur alvarlega af veirunni og lá á gjörgæslu í nokkra daga fyrr á árinu. 

Matt Hancock heilbrigðisráðherra hefur boðist til þess að láta bólusetja sig í beinni útsendingu í sjónvarpi til að slá á ótta landsmanna. Hann segir bólusetninguna í morgun lykilstund í áætlun um að vernda viðkvæmustu hópa landsins.

Bretar hafa pantað 40 milljón skammta af bóluefninu og nægir það til að bólusetja 20 milljónir einstaklinga. Í fyrstu umferð verða 800 þúsund einstaklingar bólusettir en von er á 4 milljónum skömmtum af bóluefninu fyrir árslok. 

Bólusett er í öllum hlutum Bretlands, Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi, og gildir sameiginlega stefna um málefnið ólíkt því sem venjan er hvað varðar heilbrigðismál.

Langflestir eru ánægðir með hversu hratt leyfið var veitt í Bretlandi en stjórnvöld gera sér einnig grein fyrir efasemdaröddum þar að lútandi. Lyfjaeftirlitið er sjálfstæð stofnum og segir hún að ekki hafi verið slakað á kröfum við veitingu leyfisins þrátt fyrir að það hafi tekið stuttan tíma. NHS á Englandi hefur gefið bóluefnið undanfarið þar sem það hefur tekið þátt í klínískum rannsóknum á bóluefni Pfizer.

Ein þeirra sem verða með þeim fyrstu að fá bólusetningu er Elísabet II en hún er 94 ára að aldri. Vonast er til þess að með því að hún vilji láta bólusetja sig auki tiltrú efasemdamanna. 

Hjúkrunarfræðingurinn May Parsons ásamt Margaret Keenan á háskólasjúkrahúsinu í Coventry …
Hjúkrunarfræðingurinn May Parsons ásamt Margaret Keenan á háskólasjúkrahúsinu í Coventry í morgun. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert