Kardashian biður Trump að sýna miskunn

Brandon Bernard ásamt fjölskyldu sinni.
Brandon Bernard ásamt fjölskyldu sinni. Twitter Kim Kardashian West

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian er ein þeirra sem hafa biðlað til Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um að þyrma lífi manns sem taka á af lífi í dag fyrir ránsmorð sem hann átti aðild að þegar hann var 18 ára gamall. Kardashian nemur lögfræði í Kaliforníu og hefur ítrekað haft afskipti af málefnum fanga.



Kardashian hefur áður þrýst á um að fólk, sem situr í fangelsi og efasemdir eru um að viðkomandi sé sekur, sé látið laust en í þetta skipti leikur enginn vafi á um sekt viðkomandi. Brandon Bernard tók ásamt fleiri ungmennum þátt í að ræna hjónum og þvinga þau til að taka út peninga. Eftir að hafa þvingað hjónin inn í skott bifreiðar skaut félagi Bernards, Christopher Vialva, hjónin í höfuðið. Annað þeirra lést samstundis og Bernard kveikti síðan í bílnum.

Kim Kardashian West.
Kim Kardashian West. AFP

Þar sem félagar Bernards og Vialva voru 15 og 17 ára voru þeir ekki dæmdir til dauða líkt og tvímenningarnir. Vialva, sem var 19 ára þegar hann framdi morðin, var tekinn af lífi í september og nú stendur til að taka Bernard af lífi síðar í dag.

Fjölmargir hafa skrifað undir ákall um að lífi Bernards verði þyrmt en ekkert bendir til annars en hans bíði sömu örlög og Vialva, að vera tekinn af lífi með banvænu lyfi í Terre-Haute-fangelsinu í Indiana í kvöld. 

Bernard verður þar með áttundi einstaklingurinn sem bandaríska alríkisstjórnin tekur af lífi síðan í júlí eftir 17 ára hlé á aftökum á vegum alríkisins. Vegna kórónuveirufaraldursins hafa ríki Bandaríkjanna, sem enn beita dauðarefsingum, nánast öll aflýst aftökum í ár. Aftur á móti hefur ríkisstjórn Donalds Trumps ekki séð ástæðu til þess og samkvæmt áætlun Trumps verða fjórar manneskjur til viðbótar teknar af lífi áður en hann lætur af völdum sem forseti Bandaríkjanna, 20. janúar. 

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert