Airbnb verðmætara en Marriott

Hlutabréfum í Airbnb var vel tekið af fjárfestum á markaði.
Hlutabréfum í Airbnb var vel tekið af fjárfestum á markaði. AFP

Hlutabréf í bandaríska heimagistingarvefnum Airbnb, sem margir Íslendingar nota og þekkja, meira en tvöfölduðust í verði þegar þau voru skráð á markað í Bandaríkjunum í gær.  Er fyrirtækið nú álíka verðmætt og bókunarrisinn Booking.com, en markaðsvirði beggja fyrirtækja hvors um sig var við lok markaða í gær rúmir 86 milljarðar bandaríkjadala, jafnvirði ríflega 11 þúsund milljarða íslenskra króna.

Til samanburðar má nefna að markaðsvirði samkeppnisaðila Airbnb, bókunarsíðunnar Expedia, er 18 milljarðar dala. Þá er fyrirtækið mun verðmætara en þekktar hótelkeðjur eins og Marriott, stærsta hótelkeðja í heimi, og Hilton, en þær eru metnar á 42 og 29 milljarða dala. Annað ferðaþjónustufyrirtæki, bandaríska flugfélagið Delta Air Lines, er metið á markaði á 30 milljarða dala.

Hækkaði strax við opnun markaða

Útboðsgengi Airbnb var 68 dalir á hvern hlut kvöldið áður en skráningin fór fram, en á fyrsta viðskiptadeginum rúmlega tvöfaldaðist það strax við opnun markaða og fór upp í 146 dali á hlut. Í lok þess dags var gengið 144,71 dalur á hlut.

Gott gengi útboðsins hefur vakið athygli á tíma þar sem heimsfaraldur stendur yfir og ferðageirinn hefur þolað þung högg.

Það er einnig athyglisvert að rifja upp að í byrjun apríl síðastliðins, eins og sagt er frá í The Financial Times, lækkaði verðmat fyrirtækisins um 16%, miðað við síðustu fjármögnunarlotu á undan, niður í 26 milljarða dala. Síðan þá hefur virði fyrirtækisins aukist um 230%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert