Lést í umsjá fósturforeldra

St. Olavs-sjúkrahúsið í Þrándheimi þar sem barn á fyrsta ári …
St. Olavs-sjúkrahúsið í Þrándheimi þar sem barn á fyrsta ári lést síðdegis í gær af innvortis áverkum. Barnið var í umsjá norskra barnaverndaryfirvalda og hafði verið komið fyrir hjá fósturforeldrum í Levanger sem nú sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa verið valdir að dauða þess. Ljósmynd/Wikipedia.org/Ezzex

Fósturforeldrar barns á fyrsta ári, sem lést af innvortis áverkum á St. Olavs-sjúkrahúsinu í Þrándheimi í Noregi síðdegis í gær, hafa verið úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald, grunaðir um að hafa verið valdir að dauða barnsins sem barnaverndaryfirvöld í Þrændalögum komu fyrir í fóstri á heimili þeirra í Levanger.

Það var á mánudaginn sem lögreglunni í Þrándheimi barst tilkynning frá sjúkrahúsinu um að innvortis áverkar barns, sem lagt hefði verið inn föstudaginn áður, væru að öllum líkindum af manna völdum.

Eftir að barnið lést í gær voru fósturforeldrarnir handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, fyrstu tvær vikurnar í fullri einangrun, vegna hættu á að sönnunargögn gætu ellegar farið forgörðum.

Líffræðilegir foreldrar þiggja áfallahjálp

Líffræðilegir foreldrar barnsins, sem búsettir eru í Orkland, vestur af Þrándheimi, hafa notið áfallahjálpar frá sveitarfélagi sínu, að sögn Ingvill Kvernmo, oddvita í Orkland. „Að missa barn er líklega það versta sem nokkur getur upplifað og áhrif þess eru þung,“ segir Kvernmo við norska ríkisútvarpið NRK í dag.

Embætti fylkismannsins í Þrændalögum hefur hafið athugun á málinu auk þess sem lögreglan í Þrándheimi rannsakar það af fullum þunga og nýtur þar fulltingis rannsóknarlögreglunnar Kripos. „Ástæðan [fyrir athugun fylkismanns] er alvarleiki málsins og ekki síður að barnið var í umsjá hins opinbera,“ segir Erik Stene, forstöðumaður æskulýðs- og velferðarmála hjá fylkismanni, við NRK og bætir því við að málið sé ákaflega sorglegt.

Grunuðu, fósturforeldrarnir, neita allri sök í málinu og hefur konan kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til lögmannsréttar, en héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu við gæsluvarðhaldsþinghaldið í gær, að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um sekt fósturforeldranna.

Niðurstaða krufningar hefur úrslitaþýðingu

Silje Noem, lögmaður lögregluumdæmis Þrændalaga, segir öll mál alvarleg sem snúi að hugsanlegu ofbeldi gegn börnum. „Málið er í forgangi hjá okkur og umfangsmikil rannsókn stendur yfir. Hún er skammt á veg komin og við vinnum út frá nokkrum kenningum sem hvort tveggja snúa að læknisfræðilegum orsökum og að áverkar hafi verið veittir.“

Krufning barnsins stendur nú fyrir dyrum og mun, að sögn Line Dreier Ramberg, sem fer með ákæruvald lögreglunnar í Þrændalögum, hafa úrslitaþýðingu við rannsókn málsins. Á meðan dánarorsök barnsins er ókunn muni lögreglan standa við grunsemdir sínar í garð fósturforeldranna. „Við metum svo stöðuna jafnharðan eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram,“ segir Ramberg við NRK.

NRK

NRKII

Aftenposten

VG

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert