Lokanir framlengdar í Danmörku

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Harðar samkomutakmarkanir sem tóku gildi í Danmörku skömmu fyrir jól verða framlengdar til 17. janúar. Frá þessu greindi Mette Frederiksen forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær. 

„Ástandið þegar kemur að fjölda smita, innlögnum á sjúkrahús og fjölda dauðsfalla er nú mun alvarlegra en það var í vor,“ sagði Frederiksen og bætti við að Danir mættu búa sig undir að langan tíma tæki að vinda ofan af takmörkununum.

Alls eru 926 á sjúkrahúsi í Danmörku vegna kórónuveirunnar og hafa ekki verið fleiri frá því faraldurinn hófst.

Allar verslanir nema matvöruverslanir verða áfram lokaðar og sama gildir um veitingastaði og kaffihús, hárgreiðslustofur, nuddstofur. Þó má selja mat og veitingar til að taka með heim.

Fjarkennsla verður í öllum skólum, bæði grunn-, framhalds- og háskólum. Kennsla í þeim síðastnefndu hefur að miklu leyti verið á netinu í allan vetur en það var þó ekki fyrr en stuttu fyrir jól sem staðkennsla var alfarið bönnuð.

Þá verða allar menningarstofnanir, svo og bókasöfn lokuð almenningi. Einnig verða íþróttahús og líkamsræktarstöðvar lokaðar, með undanþágum fyrir afreksíþróttamenn.

Þessar hörðu takmarkanir, sem Mette Frederiksen hefur lýst sem „raunverulegri lokun Danmerkur“ voru kynntar 16. desember og tóku gildi 21. desember. Áttu þær upphaflega að gilda til 3. janúar, en hafa nú sem fyrr segir verið framlengdar.

Frétt DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert