Sturgeon vill aftur inn í ESB

Nicole Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar.
Nicole Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. AFP

Fyrsti ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, segir að Skotar vonist til þess að verða aftur aðilar áð Evrópusambandinu sem sjálfstæð þjóð. Þetta gerir hún í ljósi útgöngu Breta úr sambandinu sem endanlega tók gildi nú um áramót.

„Sem sjálfstæður meðlimur Evrópusambandsins mun Skotland verða samherji og byggja brýr,“ segir Sturgeon í pistli á vefsíðu flokks síns, Skoska þjóðarflokksins.

Meirihluti Skota kaus með áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu í Brexit-kosningunum árið 2016 og kynti það undir glóðinni í umræðum um sjálfstæði Skotlands. Hafandi tapað þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2014, fer Sturgeon nú fyrir herferð til þess að Skotar fái aftur að kjósa um sjálfstæði sitt.

„Við vildum ekki ganga út úr sambandinu á sínum tíma og við vonumst til þess að ganga aftur til liðs við ykkur sem jafningi,“ segir Sturgeon og ávarpar þar aðildarríki ESB.

Vongóð að sjálfstæði sé í kortunum

Skotar fá ekki að kjósa um eigið sjálfstæði nema með leyfi frá breska forstæðisráðherranum og ef svo ólíklega vildi til að það leyfi fengist í náinni framtíð, þá er ljóst að mikið verk er fyrir höndum ætli Skotar sér að ganga aftur í ESB. Mikill hallarekstur hefur plagað skoskt hagkerfi árum saman.

Sturgeon hefur áður sagt að kosningarnar um sjálfstæði 2014 hafi verið eitthvað sem aðeins gerist einu sinni á hverri kynslóð, en hún segist nú sannfærð að Brexit-kosningin og útganga Breta úr ESB í kjölfarið hafi breytt landslaginu. Nýlegar kannanir benda til að mikill stuðningur sé fyrir sjálfstæði Skota í Skotlandi.

mbl.is