Repúblikanar reyna enn að fá úrslitunum hnekkt

Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Texas.
Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Texas. AFP

Hópur öldungadeildarþingmanna Bandaríkjaþings, með forsetaframbjóðandann fyrrverandi og öldungadeildarþingmann Texas, Ted Cruz, í fararbroddi, segjast ekki munu samþykkja niðurstöður nýafstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum vegna meints kosningasvindls. BBC greinir frá.

Báðar deildir Bandaríkjaþings koma saman á miðvikudag til þess að staðfesta kjör kjörmannaráðsins (e. electoral college) í Bandaríkjunum og þar segjast Cruz og félagar ætla að vera með sögulegan uppsteyt, enda er um mjög mikið formsatriði að ræða þegar Bandaríkjaþing kemur saman og staðfestir kjör kjörmannaráðsins.

Alls hafa 11 núverandi og verðandi öldungadeildarþingmenn sagst ætla að mótmæla niðurstöðum kjörmannaráðs, nokkuð sem verður að teljast ansi veikluleg atlaga enda hafa flestir þingmenn úr báðum flokkum í báðum deildum sagt að þeir ætli að staðfesta kjör Joes Bidens til forseta Bandaríkjanna. Þar á meðal er Mitch McConnell, forseti öldungadeildarinnar úr röðum repúblikana.

Mitch McConnell.
Mitch McConnell. AFP

Verður að tilkynna eigin ósigur

Í gær varð það svo ljóst að önnur tilraun þingmanna repúblikana til að fá niðurstöðum kosninganna í nóvember hnekkt rann út í sandinn. Alríkisdómstóll í Texas vísaði þá ákæru öldungadeildarþingmanns í ríkinu sem ætlaði sér að þvinga Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna og forseta öldungadeildarinnar, til þess að ógilda atkvæði einstakra kjörmanna úr kjörmannaráðinu, nokkuð sem alls ekki er hefð fyrir því að gera.

Niðurstaða dómara var að enginn lagalegur grundvöllur væri fyrir slíkum ákærum. Það mun því falla í skaut Mikes Pence, fráfarandi varaforseta Bandaríkjanna, að tilkynna formlega ósigur sinn og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta fyrir öldungadeildinni á miðvikudaginn næsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert