Setja viðskiptaþvinganir á herforingjastjórnina

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sett viðskiptaþvinganir á leiðtoga valdaránsins og herforingjastjórnina í Mjanmar. Þvinganirnar ná til leiðtoga innan hersins, fjölskyldna þeirra og fyrirtækja þeim tengdum.

Þá vinna bandarísk stjórnvöld einnig að því að koma í veg fyrir aðgang hersins að sjóðum í eigu stjórnvalda í Mjanmar í Bandaríkjunum. 

Aðgerðirnar koma í kjölfar þess að kona var skotin í höfuðið í mótmælum gegn valdaráni hersins. Konan berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í höfuðborginni Nay Pyi Taw. 

Tugþúsundir hafa mótmælt í Mjanmar í kjölfar valdaránsins í síðustu viku þegar lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn Aung San Suu Kyi var steypt af stóli. 

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu sem gefin var út í kjölfar þess að Biden skrifaði undir tilskipun þess efnis að viðskiptaþvinganir verði settar á, segir að Biden krefjist þess að kjörin ríkisstjórn taki við völdum að nýju og að Suu Kyi og aðrir sem handteknir voru í síðustu viku verði látin laus úr haldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert