Hjarðónæmi mögulega í Evrópu í júlí

Bólusetningar eru lykillinn að hjarðónæmi.
Bólusetningar eru lykillinn að hjarðónæmi. AFP

Mögulega verður komið hjarðónæmi í Evrópu í júlí segir Thierry Bret­on, yf­ir­maður innri markaðar ESB, en von er á töluverðu magni af bóluefni á næstunni. 

Breton nefndi mögulega dagsetningu í þessu samhengi, 14. júlí, en vísaði þar til þjóðhátíðardags Frakka. Breton var í viðtali við franska ríkissjónvarpið. Hann segir að það liggi fyrir að aðeins ein lausn sé fyrir hendi til að vinna bug á faraldrinum – bólusetning – og það sé á leiðinni. 

Yfir þriðjungur Frakka býr nú við mun harðari sóttvarnareglur en áður, útgöngubann að mestu. Víða í Evrópu hefur gripið um sig mikil reiði með harðar sóttvarnareglur og mótmælt víða í Þýskalandi, Hollandi, Búlgaríu og Sviss. 

AstraZeneca hefur aðeins afhent 30% af þeim 90 milljón skömmtum af bóluefni sem það hét ESB á fyrsta ársfjórðungi. Breton segist sannfærður um að meira bóluefni berist fljótlega og að von sé á 300-350 milljón skömmtum af bóluefni á tímabilinu mars til júní. 55 verksmiðjur í Evrópu framleiði nú bóluefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert