Hjarðónæmi í Bretlandi á mánudag

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Hjarðónæmi við kórónuveirunni mun nást í Bretlandi á mánudag, samkvæmt niðurstöðum spálíkans sem University College London (UCL) hefur gert. Í frétt Telegraph segir að vegna þessa verði vart við aukinn þrýsting á stjórnvöld að losa frekar um samkomutakmarkanir þar í landi.

Samkvæmt fyrrnefndum niðurstöðum munu 73,4% Breta vera ónæm gegn veirunni hvort sem er vegna fyrri smita eða bólusetninga.

„Í fyrstu komu niðurstöðurnar mér á óvart,“ segir Karl Friston, prófessor við UCL, og bætir við: „Þær þurfa þó ekki að koma á óvart um leið og maður áttar sig á því að rúmlega 50% fullorðinna hafa verið bólusett, 42% hafa nú verið útsett fyrir kórónuveirusmiti og um 10% voru nú þegar ónæm gegn veirunni.“

Ekki allar spár jafngóðar

Spá UCL gengur þó í berhögg við spálíkan sem Imperial College gerði í endaðan mars. Þar var því spáð að 34% Breta yrðu ónæm í byrjun apríl, ekki nægilega margir svo að hjarðónæmi næðist.

Breska hagstofan spáði því svo í síðustu viku að um miðjan mars hefðu 54% Breta nú þegar verið orðin ónæm, rétt undir hjarðónæmismörkum, sem sögð eru vera á bilinu 60-70%. Síðan þá hafa rétt rúmlega sjö milljónir Breta fengið fyrsta skammt bóluefna við kórónuveirunni og þar að auki um 100 þúsund manns smitast, á meðan fjöldi annarra hefur orðið ónæmur án þess að kenna sér meins vegna kórónuveirusmits.

Mánudagsins er því beðið með mikilli eftirvæntingu í Bretlandi, sérstaklega vegna þess að nú hefur lengi legið fyrir að þá verða ýmsar takmarkanir felldar úr gildi. Frá og með mánudeginum mega krár og veitingastaðir þjóna til borðs utandyra, líkt og eftir pöntun þar sem nú er farið að sumra víða á Bretlandseyjum.

Carl Elliott, kráareigandi í Norður-Lundúnum, undirbýr sig fyrir átökin á …
Carl Elliott, kráareigandi í Norður-Lundúnum, undirbýr sig fyrir átökin á mánudag. AFP
mbl.is