Gæti tafið áætlanir stjórnvalda

Bretar hófu að bólusetja með Moderna-bóluefninu í dag en það er þriðja bóluefnið sem notað er þar í landi. Ekkert ríki Evrópu hefur bólusett jafn hátt hlutfall þjóðar og Bretland. Flestir hafa verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca en það bóluefni er til rannsóknar vegna mögulegra tengsla þess við blóðtappa og óeðlilegar blæðingar, einkum hjá ungu fólki.

Byrjað var að bólusetja með Moderna-bóluefninu skömmu eftir áramót á Íslandi sem og í þeim ríkjum sem eiga aðild að bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins. Eins er það notað í Bandaríkjunum en Moderna er bandarískt lyfjafyrirtæki.

Jafnframt hafa Bretar bólusett gegn Covid-19 með bóluefni Pfizer-BioNTech.

Fyrstu einstaklingarnir voru bólusettir með Moderna á sjúkrahúsi í Wales í morgun. Fagnaði forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, þessum áfanga og segir að bresk yfirvöld hafi pantað 17 milljónir skammta af bóluefni Moderna. Þeir skammtar verði notaðir á næstu vikum skrifar hann á Twitter og biðlar til fólks að mæta strax í bólusetningu þegar haft er samband við það.  

Útlit er fyrir að dragi úr krafti bólusetninga í Bretlandi með AstraZeneca í apríl vegna birgðavandamála hjá lyfjafyrirtækinu og eins hafa ýmsir áhyggjur af mögulegum tengslum þess við blóðtappa.

Í gærkvöldi greindi Oxford-háskóli frá því að hlé hafi verið gert á tilraunum með bóluefnið á börnum.

Lyfjaeftirlit Bretlands, Medicines and Healthcare products Regulatory Agency (MHRA), er með til rannsóknar tilvik þar sem fólk hefur í örfáum tilvikum fengið blóðtappa eftir bólusetningar með AstraZeneca-bóluefninu. Um páskana greindi MHRA frá því að tilkynnt hafi verið um 30 slík tilvik og af þeim sjö banvæn af þeim 18 milljónum skammta sem gefnir hafa verið af bóluefninu í Bretlandi. 

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) er einnig með málið til rannsóknar en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir bóluefnið öruggt.

Kent Woods, sem er fyrrverandi yfirmaður bæði MHRA og EMA, segir að áhættan sem fylgi Covid-19 sé miklu alvarlegri og meiri en hættan af notkun AstraZeneca-bóluefnisins.

Allar tafir á bólusetningum í Bretlandi geta tafið fyrirhugaðar afléttingar á sóttvarnaráðstöfunum breskra yfirvalda en stefnt er að því að allir fullorðnir Bretar verði búnir að fá að minnsta kosti einn skammt af bóluefni við Covid-19 fyrir lok júlí. Það er sama markmið og íslensk stjórnvöld eru með. 

Johnson greindi frá því á mánudag að krár og veitingastaðir geti opnað fljótlega og þjónað til borðs utandyra. Frá 12. apríl geta Bretar að nýju farið í líkamsrækt og verslanir sem ekki selja nauðsynjavöru eftir margra vikna lokun. Jafnframt verður hárgreiðslustofum heimilað að opna að nýju.

Ég ætla sjálfur að fara á krána og fá mér stóran bjór sagði Johnson þegar hann kynnti breytingarnar sem taka gildi 12. apríl. 

mbl.is