Juneteenth verði frídagur

Barist gegn kynþáttafordómum í Bandaríkjunum.
Barist gegn kynþáttafordómum í Bandaríkjunum. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær einróma að gera Juneteenth, sem haldinn er 19. júní ár hvert, að frídegi um landið allt. Dagurinn markar lok þrælahalds í Bandaríkjunum.

Búist er við því að ákvörðunin verði samþykkt af fulltrúadeildinni þar sem demókratar eru í meirihluta. Öldungadeildaþingmenn hafa fagnað því að samstaða hafi náðst um málið. 

Á Juneteenth er þess minnst þegar svörtum þrælum í Texas-ríki var tilkynnt að þeir væru frjálsir 19. júní 1865. 

Charles Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, segir þá ákvörðun að gera Juneteenth að frídegi vera stórt skref í því að viðurkenna hörmungar fortíðarinnar. 

Frumvarp sem hefði gert Juneteenth að hátíðisdegi var fellt í öldungadeildinni á síðasta ári þegar Ron Johnson, öldungadeildarþingmaður repúblíkana frá Wisconsin, mótmælti þeim kostnaði sem dagurinn hefði í för með sér. Hann sagði þá að kostnaður vegna frídags hjá opinberum starfsmönnum væri 600 milljónir bandaríkjadalir. Johnson lagðist ekki gegn frumvarpinu í gær, en sagðist þó enn hafa áhyggjur af kostnaðinum. 

mbl.is