Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaður, var í dag dæmdur í meira en 20 ára fangelsi fyrir að brjóta gegn borgaralegum réttindum George Floyd.
Hann afplánar nú þegar 22 ára fangelsisdóm fyrir morðið á Floyd með því að hafa kropið á hálsi hans í níu mínútur og 29 sekúndur í maí árið2020 með þeim afleiðingum að hann lést.
Dómarnir tveir munu gilda samhliða og verður Chauvin nú fluttur í alríkisfangelsi. Hann mun þó næstum örugglega eyða meiri tíma á bak við lás og slá í kjölfar dómsins, að því er segir í frétt BBC.
Alríkisákærurnar á hendur Chauvin voru annars vegar fyrir að svipta Floyd réttindum sínum með því að krjúpa á hálsi hans þar sem hann var í handjárnum og hins vegar með því að hafa ekki útvegað honum læknishjálp við handtökuna.
Chauvin ávarpaði börn Floyds, sem sum voru viðstödd réttarhöldin, og óskaði þeim „alls hins besta í lífinu“ og að þau hefðu „frábæra leiðsögn til þess að verða góðir fullorðnir einstaklingar“. Hann baðst ekki afsökunar.
„Fyrir gjörðir þínar verður þú að sæta ábyrgð,“ sagði dómarinn Paul Magnuson áður en hann kvað upp dóminn. Hann lauk réttarhöldunum með því að óska Chauvin „alls hins besta í framtíðinni“.