Yfirvöld í Kabúl gefast upp

Talíbanar myndaðir í dag.
Talíbanar myndaðir í dag. AFP

Starfandi innanríkisráðherra Afganistan sagði að „friðsamlegt framsal valds“ yfir Kabúl, höfuðborg landsins, yrði framkvæmt. Því er útlit fyrir að innan skamms verði völd yfir öllum mikilvægustu borgum Afganistans komin í hendur talíbana, einungis tíu dögum eftir að þeir hófu að sölsa til sín veruleg völd.

Samningamenn talíbana eru nú á leið til forseta landsins til þess að undirbúa valdframsal. 

Talíbanar tilkynntu fyrr í dag að þeir hefðu skipað bardagamönnum að bíða við hlið borgarinnar. 

„Afganir þurfa ekki að hafa áhyggjur. Það verður ekki ráðist á borgina og við munum framkvæma friðsamlegt framsal valds frá núverandi ríkisstjórn til bráðabirgðastjórnarinnar,“ sagði innanríkisráðherrann, Abdul Sattar Mirzakwal, í myndskeiði sem birtist á afganskri sjónvarpsstöð.

Yfirgefa farartæki sín og ganga á flugvöllinn

Mikill fjöldi Afgana hefur flúið borgina vegna ástandsins og hafa skapast verulegar tafir á umferð vegna þess. Fólk hefur jafnvel stigið út úr bílum sínum og gengið af stað á flugvöllinn. 

Talíbanar gáfu það út fyrr í dag að bardagamenn þeirra ættu að hleypa þeim út úr borginni sem vildu flýja.

Margir Afganir segjast aldrei hafa verið jafn áhyggjufullir. Mörgum búðum og mörkuðum hefur verið lokað, hið sama má segja um ýmsar ríkisstofnanir.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina