Tárvotur hermaður lýsir hörmungum við brotthvarfið

Liðþjálfinn Tyler Vargas-Andrews kom fyrir þingnefndina í gær.
Liðþjálfinn Tyler Vargas-Andrews kom fyrir þingnefndina í gær. AFP

Fyrrverandi bandarískur hermaður sem særðist alvarlega í Afganistan segir að brotthvarf Bandaríkjahers frá landinu árið 2021 hafi verið hrein hörmung. Þetta sagði hann þegar hann gaf vitnisburð fyrir utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings. 

Hermaðurinn, Tyler Vargas-Andrews, mætti fyrir þingnefndina, sem repúblikanar fara fyrir, en nefndinni er ætlað að rannsaka hvernig ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta stóð að því að flytja herinn frá Afganistan fyrir tveimur árum. 

Hann lýsti glundroða og skipulagsleysi dagana eftir að talíbanar náðu Kabúl, höfuðborg landsins, aftur á sitt vald. 

Aðrir hermenn hafa talað um áföll sem þeir glíma enn við í dag og hvað það hafi reynt andlega á menn að skilja sína bandamenn eftir óstudda, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.

Vargas-Andres, sem er 25 ára gamall, var einn af nokkrum bandarískum hermönnum sem fengu það verkefni að verja flugvöllinn í Kabúl. 26. ágúst 2021. Þann dag gerðu tveir menn sjálfsvígsárás á hóp Afgana sem voru að reyna flýja undan talíbönum á meðan brottflutningurinn stóð sem hæst.

Þrettán bandarískir hermenn létu lífið í árásunum og 170 afganskir ríkisborgarar. 

Vitnisburður hermannsins var tilfinningaþrunginn, en hann særðist sjálfur alvarlega í …
Vitnisburður hermannsins var tilfinningaþrunginn, en hann særðist sjálfur alvarlega í sjálfsvígsárásum sem voru gerðar í ágúst 2021. AFP

Vargas-Andrews greindi þingnefndinni frá því að hann og annar hermaður hefðu fengið upplýsingar um að til stæði að gera árás á svæðinu og að þeir hefðu komið auga á árásarmennina í þvögunni. Hann segist hafa látið sína yfirmenn vita af stöðunni og óskað eftir heimild til að bregaðst við, en svörin stóðu á sér. 

„Í einföldu máli, þá vorum við hunsaðir,“ sagði Vargas-Andrews. 

Vitnisburður hans fyrir nefndinni var tilfinningaþrunginn og tárvotur lýsti hann hvernig hann kastaðist upp í loft þegar sprengjurnar sprungu. Þegar hann opnaði augun sá hann félaga sína annað hvort látna eða meðvitundarlausa. Sjálfur særðist hann alvarlega, m.a. á kvið og þá missti hann annan handlegginn.

Hann sagði enn fremur að brotthvarfið hefði verið hrein hörmung. Það væri óafsakanlegt hvernig enginn tók ábyrgð og vanrækslan hefði verið algjör. 

mbl.is