Bandaríkin hafa yfirgefið Afganistan

Herflugvél tekur á loft frá flugvellinum í Kabúl. Síðasta flugvélin …
Herflugvél tekur á loft frá flugvellinum í Kabúl. Síðasta flugvélin tók á loft rétt fyrir miðnætti. AFP

Síðustu hermenn Bandaríkjanna hafa nú yfirgefið Afganistan. Markar þetta endi á tuttugu ára hernaðaríhlutun landsins í Afganistan en þau hófust í kjölfar árásarinnar á Tvíburaturnana þann 11. september 2001.

„Ég er hér til að tilkynna að rýmingu okkar frá Afganistan er lokið,“ sagði Kenneth McKenzie, hershöfðingi í landgönguliði Bandaríkjahers og yfirmaður heraflans í Afganistan, í yfirlýsingu nú fyrir skömmu.

Síðasta flugvélin tók á loft frá Hamid Karzai-alþjóðaflugvellinum einni mínútu fyrir miðnætti að staðartíma. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hafði áður heitið því að allir bandarískir hermenn yrðu búnir að yfirgefa Afganistan fyrir 31. ágúst.

Mikill viðbúnaður

Mikill öryggisviðbúnaður var fyrir flugtakið en í síðustu viku sprungu tvær sprengjur við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl og í morgun var flugskeytum skotið að flugvellinum. Hefur Khorasan, öfgahópur á vegum Ríkis íslams, lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Að sögn McKenzie voru talíbanar mjög hjálpsamir við rýminguna, þrátt fyrir mikið ósætti milli þeirra og bandaríska hersins.

Skothvelli mátti heyra víða í Kabúl þegar bandaríski herinn staðfesti brottför sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina