Lögðu á flótta og óviss um næstu skref

Fjöldi manna hefur flúið frá Afganistan út í óvissuna.
Fjöldi manna hefur flúið frá Afganistan út í óvissuna. AFP

Afgönsk kona sem flúði frá heimalandinu til Katar ásamt eiginmanni sínum og börnum segir brottförina hafa verið erfiða og að hún hafi aldrei búist við því að þurfa að flýja landið áður en talíbanar tóku yfir.

Konan hafði starfað með mannréttindasamtökum og óttaðist því fjölskyldan að talíbanar beindu spjótum sínum að henni, en konan lýsti þá einnig ógnvekjandi ástandinu á flugvellinum í Kabúl í samtali við fréttastofu Reuters; þar varð hún vitni að því þegar maður var skotinn í fótinn af hermönnum.

„Þetta var bara hræðilegt og ég vissi ekki hvað ég átti að gera,“ sagði hún. Er hún ein af hundruðum flóttamanna sem hafa haldist við í íbúðakjarna í Doha í Katar, en stjórnvöld þar í landi hýsa flóttafólk frá Afganistan þar til það getur ferðast til annarra landa.

Sjá fram á erfiða síma

Fréttastofa Reuters ræddi við annan mann sem hélt til í íbúðakjarnanum, lögmann sem hafði unnið með alþjóðlegum fyrirtækjum. Hann óttaðist að talíbanar myndu sækja að honum vegna starfsins. „Við sjáum fram á algjörlega breytta og erfiða tíma,“ sagði hann. Enn einn maður sem fréttastofan ræddi við taldi ólíklegt að talíbanar stæðu við loforð sín um að konur myndu njóta réttinda í Afganistan:

„Það sem hræðir mann kannski mest er að Afganistan á sér litla von núna,“ sagði hann, en hann flúði til Katar ásamt konu sinni, þremur börnum, foreldrum og tveimur systrum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert