Hefja aftökur að nýju

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Yfirmaður svokallaðrar trúarlögreglu talíbana í Afganistan hefur tilkynnt að aftökur og aflimanir verði teknar upp að nýju í landinu. 

Mullah Nooruddin Turabi, sem er m.a. yfir fangelsismálum undir stjórn talíbana, sagði við AP fréttastofuna að slíkar refsingar væru „nauðsynlegar til að tryggja öryggi“. Refsingar verða þó ekki framkvæmdar á almannafæri líkt og tíðkaðist þegar talíbanar réðu síðast lögum og lofum í Afganistan á tíunda áratug síðustu aldar. 

Þá gaf Turabi lítið fyrir gagnrýni á opinberar aftökur talíbana: „Það segir okkur engin hvernig okkar lög eiga að vera.“

Skömmu áður en talíbanar tóku völdin í Afganistan 15. ágúst sl. sagði dómari talíbana í Balkh, Haji Badruddin, við fréttaritara BBC að hann styðji harðneskjulega og bókstaflega túlkun hópsins á íslömskum lögum. 

„Í sharía-lögum okkar er skýrt, fyrir þá sem stunda kynlíf og eru ógiftir, hvort sem það er stelpa eða strákur, að refsingin sé 100 svipuhögg á almannafæri. Fyrir þá sem eru giftir er refsingin grjótkast til bana... Fyrir þá sem stela, hafi það verið sannað, á að skera höndina af,“ sagði Badruddin. 

Á tíunda áratugnum voru aftökur í Afganistan framkvæmdar fyrir almenningi á íþróttaleikvangi Kabúl eða úti fyrir Eid Gah moskunni. Á þeim tíma var Turabi dómsmálaráðherra landsins. 

„Allir gagnrýndu okkur fyrir refsingar á leikvanginum, en við sögðum aldrei neitt um annarra lög eða refsingar,“ sagði Turabi í nýlegu viðtali. 

mbl.is