Hong Kong-búar borga fyrir að sofa í rútu

Vansvefta Hong Kong-búar geta nú höfði hallað eftir að rútubílafyrirtæki eitt hóf að bjóða viðskiptavinum sínum í fimm klukkustunda rútuferð um borgina, til þess eins að farþegum komi dúr á auga. 

Ys og þys í Hong Kong er meiri en í mörgum öðrum borgum. Þéttbýli íbúa er vel þekkt og leigja margir ofurlitlar herbergiskytrur fyrir háar upphæðir. Það er því ekki nema von að einhverjir Hong Kong-búar eigi erfitt með svefn og má gera ráð fyrir að markaðurinn fyrir nýju svefnrúturnar sé tiltölulega ómettur. 

Einn farþegi segir við AFP að hann hafi komið um borð í þar til gerðum fatnaði svo að sem auðveldast sé að sofna. Hann er einnig vel búinn: með andlitsgrímu, heyrnartól og bindi fyrir augunum enda hábjartur og sólríkur dagur í borginni.

mbl.is