Segja Rússa hafa gert loftárás á leikskóla

Íbúar flýja borgina þann 5. mars síðastliðinn. Loftárásin í dag …
Íbúar flýja borgina þann 5. mars síðastliðinn. Loftárásin í dag mun hafa verið fyrsta beina árásin á borgina frá því að innrásin hófst. AFP/Emra Caylak

Að minnsta kosti einn hefur látið lífið í skotárás Rússa á miðborg úkraínsku borgarinnar Dnípró. Samkvæmt upplýsingum neyðarþjónustunnar þar í landi var ráðist á borgaraleg skotmörk.

Þetta mun vera fyrsta beina árásin á borgina frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir rúmum tveimur vikum, eða þann 24. febrúar.

„Árla föstudagsmorgun voru þrjár loftárásir á borgina sem hæfðu aðallega leikskóla, íbúðablokkir og tveggjahæða skóverksmiðju sem olli því að eldur braust út. Ein manneskja dó,“ segir í tilkynningu frá neyðarþjónustunni.

Þá hefur einnig verið tilkynnt um skotárás á borgina Lutsk í norðvestur Úkraínu og lentu sprengjurnar nærri flugvellinum. Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur áður sagt að hersveitir séu að miða á flugvelli í borgunum Lutsk og Ívano-Frankívsk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert