Þungunarrof orðið refsivert

Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahóma.
Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahóma.

Kevin Stitt ríkisstjóri Oklahóma í Bandaríkjunum samþykkti í dag lög sem gerir það ólöglegt að framkvæma þungunarrof.

Þar með verður refsivert að framkvæma þungunarrof í Oklahóma-ríki og getur hver sá sem framkvæmir slíka aðgerð átt á hættu að vera dæmdur í allt að tíu ár í fangelsi og að fá 100.000 Bandaríkjadala sekt. Eina undantekningin er þungunarrof sem er gert í því skyni að bjarga lífi óléttrar konu. 

Eiga lögin aðeins við um þá sem framkvæma aðgerðirnar en ekki konur sem sækjast eftir þeim.

Lögin líkleg til að rata fyrir dómstóla 

Lögin taka gildi eftir 90 daga og virðist vera partur af stefnu ríkja í Bandaríkjunum þar sem Repúblikanar eru í meirihluta. Þeir sem berjast fyrir rétti fyrir þungunarrofi telja líklegt að lögin eigi eftir að rata fyrir dómstóla enda eru þau að mati þeirra í andstöðu við stjórnarskrá Bandaríkjanna.  

Svipuð lög sem hafa verið samþykkt í Oklahóma og í öðrum íhaldssömum ríkjum hafa verið felld úr gildi af dómstólum undanfarin ár vegna þess að dómstólar hafa talið þau í andstöðu við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Nýleg niðurstaða Hæstaréttar Bandaríkjanna, um að fella ekki úr gildi lög sem voru samþykkt í Texas sem gera ólöglegt að fara í fóstureyðingu eftir sex vikur af meðgöngu, gæti þó breytt þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert