Lögin standa en mega kæra til ríkisdómstóls

Hæstiréttur Bandaríkjanna lét lögin um bann við fóstureyðingum í Texas …
Hæstiréttur Bandaríkjanna lét lögin um bann við fóstureyðingum í Texas eftir sex vikur af meðgöngu standa. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi dóm í dag vegna laga um bann við fóstureyðingum eftir sex vikur af meðgöngu. Lögin voru sett í Texas og ákváðu dómarar Hæstaréttar Bandaríkjanna að leyfa lögunum að standa. Þeim aðilum sem framkvæma fóstureyðingar í ríkinu er heimilt að kæra lagasetninguna til ríkisdómstóla í Texas telji þeir að brotið sé á stjórnarskrárvörðum rétti til fóstureyðinga.

Lögin sem banna fóstureyðingar frá sjöttu viku meðgöngu tóku gildi í Texas 1. september. Hæstiréttur ákvað á þeim tíma að leyfa lögunum að standa en hefur núna fellt dóm þess efnis að fóstureyðingarstofur geti kært til ríkisdómstóla í Texas, sem áður höfðu dæmt lagasetninguna ólöglega þar sem hún var talin brjóta á stjórnarskrá ríkisins.

Hvergi annars staðar í Bandaríkjunum eru jafn miklar skorður settar á rétt kvenna til þess að fara í fóstureyðingu eins og í Texas. Með þessari ákvörðun hæstaréttar er ferlið því í raun komið á byrjunarreit að nýju. Málið því búið að fara fyrir æðsta dómstig landsins, sem nú vísar fóstureyðingarstofum aftur að alríkisdómstólum Texas ríkis.

Sérfræðingar á vegum CNN hafa bent á í dag að þeir dómarar hæstaréttar sem Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, skipaði séu að „hafa þau áhrif á dómstólinn sem stuðningsmenn forsetans fyrrverandi vildu“.

Á valdatíð sinni skipaði Donald Trump þrjá hæstaréttardómara sem allir teljast íhaldssamir í skoðunum sínum og nálgun á dómarastörfin. Trump skipaði Amy Coney Barrett stuttu áður en hann lét af embætti. Skipun hennar var harðlega gagnrýnd ekki síst fyrir þær sakir að vika var til forsetakosninga þegar Trump skipaði hana í embætti. 

Amy Coney Barrett, hæstaréttardómari.
Amy Coney Barrett, hæstaréttardómari. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert