Mun taka tíma að treysta ekki á rússneska orku

Í Þýskalandi kemur um 25% olíu frá Rússlandi og 40% …
Í Þýskalandi kemur um 25% olíu frá Rússlandi og 40% jarðgass. AFP

Christian Lindner, fjármálaráðherra Þýskalands, segir ríkið „vinna eins hratt og hægt er“ að því að treysta ekki á orku frá Rússlandi, það muni þó taka tíma. 

„Við þurfum að vera þolinmóð,“ sagði Lindner í viðtali við BBC

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, hefur hins vegar áður sagt að fyrir lok þess árs muni ríkið hætta að eiga í olíuviðskiptum við Rússland. Stuttu síðar yrði hætt að kaupa rússneskt jarðgas.

Volodymír Selenskí, for­seti Úkraínu, hef­ur sakað ríki Evr­ópu sem hafa haldið áfram inn­flutn­ing á rúss­neskri olíu um að „þéna pen­ing sinni á annarra manna blóði“.

Tekjur Rússa af sölu jarðgass og olíu eru um einn milljarður Bandaríkjadala á hverjum degi. 

Bandaríkjamenn hafa nú þegar sett viðskiptabann á rússneska olíu og Bretar áætla að hætta viðskiptum fyrir lok þessa árs. 

Evrópuríki reiða þó ennþá á rússneska orku. Í Þýskalandi kemur um 25% olíu frá Rússlandi og 40% jarðgass. 

Linder sagði við BBC að ríkið væri að vinna hörðum höndum að því að banna rússneska orku en að ákjósanlegar refsiaðgerðir myndu hafa meiri áhrif á Vladimír Pútín Rússlandsforseta en á Þýskaland. 

Hann sagði að ef farið væri of hratt í aðgerðirnar gætu þýskir framleiðendur orðið gjaldþrota.

„Þegar allt er uppi staðið viljum við ekki eiga í frekari viðskiptum við Pútín,“ sagði Linder. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert