Þungunarrof verði ólöglegt eftir sex vikna meðgöngu

Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahoma.
Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahoma.

Ríkisstjóri Oklahoma-ríkis skrifaði í dag undir ein hörðustu lög um þungunarrof í Bandaríkjunum í kjölfar þess að áliti meirihluta Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem gefur til kynna að rétturinn muni snúa við dómafordæminu í Roe gegn Wade, var lekið.

„Ég er stoltur af því að skrifa undir SB 1503, Oklahoma-hjartsláttarlöggjöfina,“ sagði Kevin Stitt ríkisstjóri á samfélagsmiðlum. „Ég vil að Oklahoma verði það ríki sem er mest gegn þungunarrofi í landinu því ég trúi að allar fjórar milljónir Oklahomabúa vilji að meirihluta til verja líf hinna ófæddu,“ sagði Stitt.

Undanþágur mögulegar

Lögin gera þungunarrof ólöglegt, eftir að hægt er að nema hjartslátt fósturs. Vanalega er hægt að nema hjartslátt fósturs eftir um sex vikna meðgöngu. Mögulegt verður að fá undanþágu frá lögunum í tilfelli læknisfræðilegra neyðartilvika, en ekki ef um er að ræða nauðgun eða sifjaspell. 

Útlit er fyrir að Hæstiréttur Bandaríkjanna muni snúa við áliti réttarins frá 1973, sem staðfesti að réttur kvenna til þungunarrofs væri stjórnarskrárvarinn. Verði drög að áliti meirihluta réttarins sem lekið var í gær að forlegu áliti réttarins, verður einstaka ríkjum um leið falið að kveða á um hvernig farið verður með málaflokkinn.

Allt að 25 ríki eru líkleg til þess að setja hömlur á aðgang kvenna að þungunarrofi. Gæti þetta þýtt að milljónir kvenna þurfi að ferðast fleiri hundruð kílómetra til þess að fá viðeigandi þjónustu. 

Málið hefur vakið gríðarlega reiði og hefur drögunum verið mótmælt víða í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert