Óttast um tugi eftir að skóli var sprengdur

Rússneskir hermenn að störfum í héraðinu Luhansk.
Rússneskir hermenn að störfum í héraðinu Luhansk. AFP/Alexander Nemenov

Óttast er að tugir manna hafi látist eftir að sprengju var varpað á skóla í austurhluta Úkraínu þar sem hersveitir stjórnvalda hafa barist við rússneska hermenn og aðskilnaðarsinna.

Serhiy Gaidai, ríkisstjóri Luhansk, staðfesti tvö dauðsföll en bætti við að óttast væri að 60 manns væru látnir undir húsarústum skólans í bænum Bilohorivka.

Um 90 manns höfðu leitað skjóls í byggingunni. 30 þeirra var bjargað og voru sjö af þeim særðir, að sögn BBC.

Rússneskir hermenn fyrir utan verksmiðju í Luhansk.
Rússneskir hermenn fyrir utan verksmiðju í Luhansk. AFP

Gaidai sagði að rússnesk flugvél hafi varpað sprengjunni á laugardag. BBC hefur ekki fengið það staðfest og engin viðbrögð hafa komið úr herbúðum Rússa.

Hart hefur verið barist í Luhansk. Rússneskar hersveitir og aðskilnaðarseinnar hafa reynt að umkringja hersveitir stjórnvalda. Um tveir mánuðir eru liðnir síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Bilohorivka er staðsett nálægt borginni Severodonetsk sem Úkraínumenn ráða yfir. Þaðan bárust fregnir af hörðum átökum í úthverfum í  gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert