Keyrði um í þrjá mánuði í leit að heimili

Osadsja segist hafa sætt sig við að henni muni alltaf …
Osadsja segist hafa sætt sig við að henni muni alltaf líða eins og aðkomumanneskju í nýju landi. AFP

Í rúma þrjá mánuði hefur hin úkraínska Oleksandra Osadsja keyrt frá einu landi til annars með börnin sín tvö í þeirri von að finna stað þar sem þeim finnst þau geta búið sér heimili.

Osadsja, sem er 26 ára og starfaði sem samfélagsmiðla- og markaðsstjóri, tók strax ákvörðun um að yfirgefa Úkraínu þegar Rússar réðust inn í landið þann 24. febrúar síðastliðinn. Hún pakkaði saman nauðsynjum fyrir sig og börnin og lagði af stað í átt að pólsku landamærunum.

Eftir tvær vikur í Póllandi og einn og hálfan mánuð í Portúgal áttaði hún sig á því að líklega myndi hún alls staðar upplifa sig sem aðkomumanneskju. Hún ákvað að sætta sig við þá staðreynd og reynir nú að byggja upp líf í nýju landi fyrir börnin sín tvö sem eru sjö og fjögurra ára.

„Erfiðast andlega er að taka ákvörðun um að setjast einhvers staðar að. Hætta að hlaupa um og reyna að finna stað sem þér finnst þú eiga heima á, hefja nýtt líf og sætta þig við að þú ert ekki á leiðinni aftur heim á næstunni. Sætta þig við að þú skiptir engu máli hér,“ segir Osadsja í samtali við BBC, en hún er nú stödd í Bologna á Ítalíu.

Upplifa einmanaleika og einangrun

Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa tæplega fimm milljónir Úkraínamanna verið skráðir sem flóttamenn víða í Evrópu frá því stríðið hófst. Konur með ung börn eru í miklum meirihluta flóttamanna, þar sem karlmenn á aldrinum 18 til 60 hafa ekki mátt yfirgefa landið vegna herskyldu.

Sálfræðingurinn Anna Prosvetova segir þessar konar þurfa að aðlaga sig að mjög streituvaldandi aðstæðum. „Þær eru fjarri sínu stuðningsneti og upplifa einmanaleika og einangrun. Þá gera þær sér grein fyrir því að þær geta aðeins stólað á sig sjálfar. Það er mjög erfitt andlega,“ útskýrir Prosvetova.

Taldi foreldrana á að koma með

„Konan verður að taka alla ábyrgðina. Hún þarf að afla fjár, hún þarf að skipuleggja líf sitt, líf barnanna og tómstundir þeirra,“ segir Anna Kaljúk, 34 ára kennari, sem flúði frá Úkraínu til Póllands með börnin sín tvö.

Henni tókst að telja foreldra sína á það að flýja líka, yfirgefa heimili sitt í Severodonetsk í austurhluta Úkraínu þar sem nú geisa miklir bardagar.

Í fyrstu neitaði móðir hennar að yfirgefa heimilið og allt sem hún þekkti. Hún var hrædd við að hefja nýtt líf í öðru landi, 61 árs gömul, án þess að kunna tungumálið. Hennar stærsta áskorun var að finna vinnu við hæfi, en það tókst. Móðir hennar starfar nú sem hárgreiðslukona í Kraká, en hún hefur áralanga reynslu í faginu.

Hvað Osödsju varðar þá eru börnin hennar tvö alltaf með henni sem gerir henni erfitt fyrir í atvinnuleit.

„Ég er samt heppin, ég átti smá sparifé og hef getað unnið aðeins í fjarvinnu, en heilt yfir er þetta mjög erfitt.“

Kaljúk tókst að telja foreldra sína á að flýja líka …
Kaljúk tókst að telja foreldra sína á að flýja líka frá Úkraínu. Þau reyna nú að byggja upp líf í Póllandi. AFP

Upplifa samviskubit vegna öryggis

Sálfræðingurinn Daría Bondar segir þessar konur sem reyna að byggja upp líf í nýju landi einnig upplifa vanlíðan vegna andstæðra póla í lífi þeirra. Það er friðsældin og öryggið í nýja landinu og hryllingurinn sem þær upplifðu í heimalandinu og fréttirnar sem þær fá þaðan.

Að hennar sögn bæla konurnar gjarnan niður tilfinningar sínar eða gera lítið úr þeim og upplifun sinni vegna þess hve staðan í heimalandinu er slæm. Þær upplifa ákveðið samviskubit vegna þess að þær eru öruggar.

Vill bæði hefja nýtt líf og fara heim

„Við eigum heima í Úkraínu, það er heimalandið okkar og það hvarflaði ekki að okkur að yfirgefa það,“ segir Kaliukh. Hún horfir daglega á fréttir frá Úkraínu og er full af stolti yfir framgöngu úkraínskra hermanna en uppfull af hatri í garð Rússa.

Osadsja segist upplifa blendnar tilfinningar. Henni finnst hún verða að hefja nýtt líf í nýju landi en henni finnst hún líka verða að fara heim. Hún gerir sér þó grein fyrir hættunni sem því fylgir.

„Ég missti alla öryggistilfinningu heima. Ég veit að í Úkraínu mun ég ekki geta sent börnin mín í skóla eða leikskóla því ef það verður ráðist á okkur þá er ég ekki nálægt börnunum mínum,“ segir hún. „Ég vil ekki þurfa að venjast sírenunum og sprengingunum,“ bætir hún við.

„Aðstæður þurfa því að breytast mikið til að ég geti snúið heim. Ég myndi þurfa að vera að minnsta kosti 90 prósent viss um að þetta myndi ekki gerast aftur og geta sofið róleg með börnin mín heima hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert