Segir Matapour ekki einan að verki

Mynd úr öryggismyndavél veitingastaðar í Grønland-hverfinu í Ósló sem tekin …
Mynd úr öryggismyndavél veitingastaðar í Grønland-hverfinu í Ósló sem tekin var af Matapour klukkan 16:10 á föstudag að norskum tíma, níu klukkustundum áður en hann skaut tvo menn til bana og særði rúmlega 20 í atlögu sinni. Ljósmynd/Norska lögreglan

Roger Berg, yfirmaður norsku öryggislögreglunnar PST, hefur greint frá því að PST telji nú sýnt að Zaniar Matapour, sem grunaður er um banvæna skotárás í miðborg Óslóar um helgina, hafi ekki staðið einn að ódæðinu eins og verið hefur hald manna fram að þessu.

„Ég get vitaskuld ekki greint frá því hverja þar er um að ræða, en leitarljós okkar beinast að fólki sem við teljum að sé viðriðið þetta og nú munum við kanna það nánar,“ segir Berg en það var norski fjölmiðillinn TV2 sem fyrst greindi frá þessum nýju grunsemdum.

Vill Berg ekki greina frá því hvort hinir nýju grunuðu séu staddir í Noregi eða annars staðar í heiminum. „Okkar sannfæring er að íslamskir öfgamenn standi á bak við árásina,“ segir hann í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og rökstyður með að PST búi yfir áreiðanlegum upplýsingum um árásarmanninn Matapour og þann félagsskap er hann ku hafa verið í.

Geta og vilji fyrir hendi

Viðbúnaðarstig norskrar lögreglu gagnvart hryðjuverkum er sem stendur á fjórða stigi sem kallast mikil hætta, „høy terrortrussel“ á norsku. „Það táknar að við álítum að geta og vilji einhverra aðila sé fyrir hendi til að framkvæma hryðjuverk í Noregi,“ segir Berg.

Emilie Enger Mehl, dómsmálaráðherra Noregs, lét þau orð falla á blaðamannafundi í dag að enginn óskaði sér að búa við það ástand sem Norðmenn upplifa nú, hins vegar væri það einlæg ósk og ásetningur ríkisstjórnar og öryggislögreglu umfram allt annað að tryggja öryggi norsks almennings.

Fórnarlamba minnst um helgina, Óslóarbúar eru í sárum eftir enn …
Fórnarlamba minnst um helgina, Óslóarbúar eru í sárum eftir enn eina árás í Noregi sem kostar fleiri en eitt mannslíf, skemmst er að minnast Kongsberg 13. október í fyrra og atlögu Anders Behring Breivik sumarið 2011. AFP/Håkon Mosvold Larsen

Norsk lögregla ber skotvopn næstu daga fram til þess er annað verður ákveðið og hefur PST gefið það út sérstaklega að þar á bæ ríki ótti við árásir á hinsegin fólk og aðra hópa sem hafi frjálslynd gildi í hávegum, fólk og hátíðir sem geti talist móðgun við íslamista, auk trúarlegra samkomustaða og fólks sem sinnir störfum sínum í einkennisbúningum, til dæmis lögreglu og her.

PST-stjórinn Berg biður Norðmenn þó að lifa lífi sínu sem endranær. „Við vitum að ástandið er þungbært en fólk verður að lifa sínu lífi áfram auk þess að vera á varðbergi og tilkynna um það sem því þykir grunsamlegt. Kveður hann PST einkum óttast tvennt. „Hið fyrra er önnur árás tengd þeirri um helgina. Hið síðara eru hvatningaráhrif árásarinnar á aðra mögulega árásarmenn. Hryðjuverk á Vesturlöndum geta vakið sterkar tilfinningar og orðið öðrum hvatning til að láta sverfa til stáls og gera svipaðar árásir,“ segir Berg.

NRK

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert